Setja á ostakvóta
23.08.2012
Hagsmunafélag svissnesku afurðastöðvanna, sem framleiða hinn heimsfræga Emmental ost, hefur nú um nokkurt skeið reynt án árangurs að ná samstöðu allra afurðastöðva í landinu um takmörkun á framleiðslu þessara osta. Ástæðan er einfaldlega offramleiðsla sem hefur leitt til of lágs verðs. Þessi barátta hefur gengið hálf illa en nú hefur ríkisstjórnin komið að málinu og ætlar að setja á kvótakerfi í greininni nú í byrjun vetrar.
Takmörkun á framleiðslu var reynd fyrst haustið 2010 og framan af árinu 2011 en þá komu að samkomulaginu stærstu framleiðendur á Emmental ostinum. Utan við samkomulagið stóðu hinsvegar nokkrar afurðastöðvar sem slógu hvergi af og hafði þessi takmörkun framleiðslunnar því þveröfug áhrif enda seldu litlu stöðvarnar sem aldrei fyrr. Þegar takmörkuninni var aflétt á ný, féll verðið enn neðar og nú var því óskað aðkomu ríkisins með fyrrgreindri niðurstöðu/SS.