Sérvörumarkaður fyrir ungabörn áhugaverður
23.01.2016
Franski afurðarisinn Danone áætlar mikinn vöxt í framleiðslu á barnamat á komandi árum en mikill vöxtur er víða um heim í framleiðslu á sérvörum fyrir ungabörn. Fyrirtækið er með umsvifamikla starfsemi í slíkri framleiðslu við bæinn Cuijk í Hollandi, þar sem meðal annars fer fram framleiðsla á ungbarnamjólk og fleiri vörum fyrir börn af hinum þekktu vörumerkjum Danone: Nutricia, Aptamil og Nutrilon. Síðasta ár jókst salan á vörum í þessum vöruflokki 11% á milli ára og hefur yfirstjórn fyrirtækisins tekið ákvörðun um að efla enn frekar framleiðslu á sérvörum fyrir börn.
Til þess að svo sé mögulegt verður byggð ný afurðastöð í nágrenni þeirrar sem fyrir er í Hollandi og verður sú nýja mun stærri og afkastameiri og er áætlaður framkvæmdakostnaður 34 milljarðar íslenskra króna. Þegar afurðastöðin verður tilbúin í lok ársins 2017 verður framleiðsla Danone á þessum sérvöruflokki flutt yfir í hina nýju aðstöðu og hinni eldri lokað. Í nýju afurðastöðinni er áætlað að Danone geti framleitt allar helstu matvörur sem unnar eru úr mjólk fyrir börn allt að 1.000 daga gömul eða um tveggja og hálfs árs/SS.