Serbar framleiða líka mjólk!
25.02.2012
Væntanlega kemur nú fáum á óvart að mjólkurframleiðsla sé stunduð í Serbíu en trúlega þekkja ekki margir Íslendingar til framleiðsluhátta þar í landi. Alls nemur ársframleiðsla mjólkur um 1.500 milljón lítrum og er 92% mjólkurinnar kúamjólk. Athyglisvert er að einungis um 52% er selt til stærri afurðastöðva en rétt tæplega helmingur fer til úrvinnslu í litlum afurðastöðvum víða um landið.
Upplýsingar um mjólkurframleiðslu Serbíu eru reyndar afar ónákvæmar og skýrsluhaldi þar stórlega ábótavant. Talið er að í landinu séu til um 220 þúsund bændur sem framleiða mjólk en meðalfjöldi kúa á hverju búi ekki nema 2,7 kýr og fjöldi kúa í landinu því um 602 þúsund. Afar fá bú eru með fleiri en 11 kýr, en talið er að þau séu ekki nema 0,7% af heildarfjölda búanna.
Íbúafjöldi landsins er um 7,1 milljón/SS.