
Sendiherrar funduðu um ESB og landbúnað í Bændahöllinni
03.02.2010
Hópur sendiherra og starfsmanna sendiráða sem starfa á Íslandi komu til fundar við bændur í Bændahöllinni á dögunum. Það voru Bændasamtökin sem boðuðu til fundarins en tilgangurinn var að kynna íslenskan landbúnað fyrir sendifulltrúunum og afstöðu Bændasamtakanna í ESB-málunum.
Vel var mætt á fundinn en á honum voru m.a. sendiherrar Bretlands, Svíþjóðar, Danmerkur og ESB ásamt starfsfólki sínu. Fulltrúar frá sendiskrifstofum Færeyja, Noregs, Frakklands auk Bandaríkjanna mættu einnig til fundarins.
Dr. Ágúst Sigurðsson, rektor LbhÍ, hélt erindi um íslenskan landbúnað þar sem hann m.a. fjallaði um rannsóknir og það sem efst er á baugi í atvinnuveginum. Á eftir honum hélt Erna Bjarnadóttir hagfræðingur BÍ tölu um afstöðu Bændasamtakanna í ESB-málunum þar sem hún fór yfir röksemdafærslu bænda gegn aðild að sambandinu. Á eftir voru umræður þar sem skipst var á skoðunum um landbúnaðarmálin og ESB.
Í heild sinni tókst fundurinn vel en breski sendiherrann, hr. Ian Whitting, hafði á orði að á 18 mánaða ferli sem sendiherra á Íslandi væri þetta í fyrsta skipti sem honum væri boðið til viðlíka fundar við forsvarsmenn atvinnuvega. Ekki bar á öðru en að sendifulltrúarnir væru áhugasamir um íslenskan landbúnað og ræddu m.a. um áhrif hugsanlegra WTO-samninga á bændur, möguleika í útflutningi á landbúnaðarvörum, matvælalöggjöf ESB og samstarf íslenskra bænda og landbúnaðarstofnana við aðrar þjóðir.
Fundinum lauk síðan á léttu nótunum þar sem fundargestum var boðið að bragða á ýmsum íslenskum landbúnaðarvörum og ræða málin frekar.
Sendiherra ESB á Íslandi, hr. Timo Summa ásamt fr. Gunvör Balle frá sendiskrifstofu Færeyja.