Beint í efni

Selja líterinn á mun hærra verði!

21.05.2016

Kúabændurnir í Ítalíu búa við þá stöðu að stóru afurðafélögin þar í landi taka ekki við allri mjólk sem er framleidd. Ástæðan er sú að afurðastöðvarnar ná ekki að afsetja mjólkina á ásættanlegu verði og tapa á henni. Sem ráð gegn því hafa afurðastöðvarnar tekið upp takmarkanir á innvigtun, sem hefur auðvitað engu breytt varðandi framleiðsluna sem slíka enda skrúfa menn nú ekki fyrir framleiðslu kúa með einföldum hætti. Vandinn fluttist þó frá afurðastöðvunum og yfir til bændanna sjálfra sem þurftu þá að hella niður mjólkinni sem umfram var.

 

Bændurnir í héraðinu Lombardi í norðurhluta Ítalíu tóku til sinna ráða og sendu mjólkina í litla afurðastöð í héraðinu og þar var henni pakkað í sérstakar umbúðir og merkt sem „samstöðumjólk“. Mjólkin var svo seld í Mílanó á rúmlega tvöföldu verði miðað við hefðbundna mjólk og tók hinn almenni neytandi þessu uppátæki vel og hefur hún síðan selst vel, enda vita neytendur að hið hærra verð skilar sér beint til kúabændanna sjálfra.

 

Þess má geta að Lombardi hérðaðið er stærsta mjólkurframleiðslusvæði Ítalíu, en þar fer fram nærri helmingur allrar framleiðslu landsins og það þrátt fyrir að 30% kúabúa svæðins hafi hætt á síðustu 10 árum/SS.