Beint í efni

Selja líterinn á 250 krónur

09.10.2017

Danska afurðafélagið Thise, sem er m.a. í samstarfi við MS um framleiðslu á skyri eftir íslenskri uppskrift, hefur nú hafið sölu á sérstaklega framleiddri mjólk, svokallaðri „Grasmjólk“. Hún er framleidd af kúm sem ekki fá fóður sem nota mætti til manneldis og kallast „Feed no food“ eða sem kalla mætti á íslensku „fóðrum ekki með matvælum“! Kýrnar fá með öðrum orðum ekki kjarnfóður eða annað sambærilegt fóður sem byggir á hráefnum sem nýta má beint til framleiðslu matvæla fyrir fólk.

Þessi sérstaka mjólk er framleidd á einungis einu kúabúi og er mjólkin einungis til sölu í einni verslunarkeðju í Danmörku. Á kúabúinu, þar sem eru í dag 100 mjólkurkýr, og fá kýrnar einungis gróffóður og auk þess þarf búið að uppfylla nokkur önnur skilyrði eins og að kálfurinn þarf að fá að ganga undir kúnni í 3-5 daga, fá mjólk í amk. 4 fyrstu mánuðina, kúm og kálfum sé tryggt 40% meira rými en krafa er gerð um í lífrænt vottaðri framleiðslu og fleira mætti telja.

Þessar viðbótarkröfur til framleiðslunnar kosta auðvitað kúabóndann miklar fjárhæðir og því þarf hann að fá töluvert meira fyrir mjólkina en þeir sem eru í hefðbundinni framleiðslu. Útsöluverð mjólkurinnar eru 250 krónur á líterinn sem er rúmlega tvöfalt hærra verð en hefðbundin mjólk er seld á, svo ætla má að kúabóndinn fái ríflega tvöfalt hærra afurðastöðvaverð en hinir/SS.