Beint í efni

Selenbættur áburður skilar sér vel

20.07.2016

Í nýjasta tímariti Journal of Dairy Science er greint frá áhugaverðri kanadískri rannsókn á áhrifum þess að nota selenbættan tilbúinn áburð á tún og hvernig það skilar sér áfram til mjólkurkúa. Rannsóknin sýnir að sé notaður slíkur áburður skilar það sér í auknu innihaldi selens í gróffóðrinu, eitthvað sem hefur svo sem verið vitað lengi. Í ljós kom hins vegar að selenið skilar sér einkar vel áfram og nýta kýrnar það betur en sé selenið gefið með öðrum hætti.

 

Í rannsókninni var Holstein kúm á miðju mjaltaskeiði skipt upp í þrjá fóðrunarhópa. Einn fékk gróffóður sem kom af túnum sem höfðu fengið selenbættan tilbúinn áburð, annar hópurinn fékk selenið frá geri sem var blandað í gróffóðrið og þriðji hópurinn fékk selenbætta steinefnablöndu. Tekin voru blóð- og mjólkursýni úr kúnum og seleninnihaldið mælt. Í ljós kom að kýrnar í fyrsta hópnum voru með hæst hlutfall af selen í bæði blóði og mjólk/SS.