Beint í efni

Sektum fyrir framleiðslu umfram kvóta frestað

29.03.2011

Margir ítalskir kúabændur eru frekar óhressir með ríkisstjórn landsins núna eftir að hún ákvað að gefa þeim bændum, sem framleiddu mjólk umfram greiðslumark sitt, frest á greiðslu sektar vegna þess. Þeir bændur sem hafa haldið sig innan kerfisins og framleitt eftir reglunum líta svo á að ríkisstjórnin sé einfaldlega að gera lítið úr þeim sjálfum og þeim reglum sem gilda. Flestir þeir sem standa frammi fyrir sektum eru með frekar mikla framleiðslu og að sögn Jorge Arias, talsmanns bænda í lífrænu afurðastöðinni Emilio Sereni, sem er norður af Firenze, þá er það nú oft svo í Ítalíu að þeir sem eru umsvifamiklir eiga auðveldara með að sleppa en aðrir.

 

Afurðastöðin hafði lagt, f.h. ríkisins, sektir á fjölmarga af sínum innleggjendum en þeir bændur sem framleiddu langt umfram greiðslumarkið hafa nú s.s. fengið frest á því að greiða sektirnar til 1. janúar 2012 en upphaflega átti að greiða sektina á síðasta ári en var s.s. fyrst frestað til 1. júlí í ár. „Okkur finnst ósanngjarnt að þeir bændur sem fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda borgi í raun fyrir þá sem svindla“, sagði Jorge. Athygli vekur að þeir sem þegar höfðu greitt sína sekt strax, fá ekki endurgreitt, svo frestunin gagnast eingöngu þeim sem hafa dregið lappirnar við greiðslu./SS