Beint í efni

Segja upp samningum við 100 kúabú

26.03.2018

Dean Foods, sem er bandarískt afurðafyrirtæki með starfsemi í 32 fylkjum Bandaríkjanna, hefur sagt upp samningum við 100 kúabú í Bandaríkjunum! Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er offramleiðsla á mjólk í Bandaríkjunum og minnkandi sala á drykkjarmjólk sem hefur leitt til verulega verri afkomu félagsins en undanfarin ár. Alls snertir þessi ákvörðun Dean Foods kúabú í átta fylkjum Bandaríkjanna og gildir hún frá lok maí en eftir þessa breytingu mun Dean Foods þó áfram sækja mjólk á 12 þúsund í landinu.

Samkvæmt tilkynningu frá Dean Foods er um neyðarlausn að ræða og segir ennfremur allt hafi verið reynt til þess að þurfa ekki að stíga þetta skref en að lokum hafi ekki annað verið hægt en að draga úr innvigtun mjólkurinnar með þessari aðferð. Ekki kemur fram í tilkynningu Dean Foods hve mikla mjólk þessi 100 kúabú leggja inn en sé horft til hlutfalls þeirra af heildarfjölda kúabú sem seldu Dean Foods mjólk fyrir þessa ákvörðun þá er það ekki nema 0,8%. Hvort þetta litla skref nægi til að snúa rekstrinum við mun tíminn leiða í ljós.

Ákvörðun Dean Foods þýðir í raun að viðkomandi kúabú, sem missa samninga við félagið, geta ekki selt mjólk sína nema þeim takist að finna annað afurðafélag sem vill kaupa mjólkina sem gæti reynst afar erfitt eins og staðan í Bandaríkjunum er sem stendur/SS.