Beint í efni

Samanburður á sköfuróbótum

24.08.2019

Eins og margir vita eflaust þá eru í dag ótal tegundir af sköfuróbótum á markaðinum og það getur verið töluvert vandasamt að velja rétta gerð. Dönsku ráðgjafasamtökin SEGES ákváðu því að fara í heimsókn á nokkur kúabú, alls 15 talsins, og skoða hve góðir sköfuróbótarnir voru þegar þeir höfðu verið í notkun í nokkurn tíma. Þessi aðferð til rannsóknir kallast „Farmtest“ sem hefur verið snarað á íslensku sem „Búreyndarathugun“ þ.e. könnun á því hvernig tækið vinnur í raun þegar misumandi bændur hafa haft það á milli handanna um hríð.

Í niðurstöðuskýrslunni frá SEGES kemur ekki fram gæðaröð á sköfuróbótunum þar sem niðurstöðurnar bentu til að allar tegundir á markaðinum stæðu sig vel og leystu verkefnið með sóma. Það er þó komið sérstaklega inn á hvað það er sem þarf að hafa í huga við val á sköfuróbóta eins og stærð og endingu á rafhlöðu, þyngd róbótans sem tengist afkastagetunni beint og fleiri slík atriði. Niðurstaðan bendir til þess að ástæða fyrir vali ætti fyrst og fremst að felast í þörfinni á búinu þar sem sumir róbótar eru með afar mikla afkastagetu og hannaðir fyrir kúabú með allt að 250 kýr og slík kaup væru auðvitað sérstök í fjósi með 60 kýr svo dæmi sé tekið.

Hér eru nokkur dæmi um sköfuróbóta sem eru á markaðinum í dag:

Delaval RS450 og Joz JT 200 EVO (sami sköfuróbótinn bara mismunandi litir og merkingar):

Lely: 90 SW, 90S og Collector 120:

GEA: SRone og SRone+:

PriBot:

Microbot 3,0:

Hetwin Apollo, Fullwood FloorCleaner og Bauer (sami sköfuróbótinn bara mismunandi litir og merkingar):

Sjálfsagt eru til margar aðrar gerðir sem greinarhöfundi er ekki kunnugt um. Ef þú telur að það vanti eitthvað upp á þessa upptalningu, sendu okkur þá endilega ábendingu (skrifstofa@naut.is). Þá er hægt að lesa dönsku skýrsluna með því að smella hér/SS.