Beint í efni

Sauðfjárbændur þinga í Bændahöll

10.04.2008

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda var settur um hádegisbil á fimmtudag og mun hann standa fram að helgi. Jóhannes Sigfússon formaður samtakanna sagði í setningarræðu að nú væru meiri umbrotatímar í íslensku efnahagslífi en verið hefðu um langt árabil og hækkanir á innfluttum rekstrarvörum til landbúnaðar stórfelldari en menn hefðu áður séð. Hann gerði að umtalsefni afskipti samkeppnisyfirvalda af félagskerfi bænda taldi það sérkennilegt ef hagsmunasamtök einstakra stétta í landinu geti ekki lengur komið saman og rætt sín mál án þess að vera grunuð um ólöglegt athæfi.

Jóhannes sagði í ræðu sinni að við þær aðstæður sem nú væru uppi í landbúnaði bæri að fresta niðurfellingu útflutningsskyldu af dilkakjöti og fara ekki í frekari tollalækkanir á innfluttu kjöti eða mjólkurvörum. Frestun á niðurfellingu útflutningsskyldunnar væri að flestra dómi sjálfsögð aðgerð nú, miðað við gjörbreyttar forsendur frá því síðasti sauðfjársamningur var undirritaður og meðan alþjóðasamningar þvinga ekki bændur til þess.

Um frekari innflutning og niðurfellingu tolla af kjöti sagði Jóhannes virka eins og olía á þann eld sem nú væri við að glíma. Hann hélt því fram að aukinn innflutningur á erlendu svína- og kjúklingakjöti á litlum sem engum tollum myndi skapa algert uppnám í öllum greinum á innlendum kjötmarkaði, samfara atvinnuleysi hjá öllum þeim þúsundum manna sem þar starfa við framleiðslu og úrvinnslu. „Forherðing þeirra stjórnmálamanna sem ætla að leysa einhvern efnahagsvanda með slíkum sjónhverfingum er með ólíkindum og minnir mest á söguna góðu um flagarann sem eldaði naglasúpuna handa kerlingunni forðum“, sagði Jóhannes m.a. í ræðu sinni sem má skoða í heild sinni á vef Landssamtaka sauðfjárbænda, www.saudfe.is

Aðalfundurinn heldur áfram á morgun föstudag og lýkur með veglegri árshátíð um kvöldið á Hótel Sögu. Dagskrá föstudagsins 11. apríl er sem hér segir:

Kl. 08:00 Nefndarstörf
Kaffi kl. 10.00 (mötuneyti BÍ)
" 11:00 Afgreiðsla mála
" 12:00 Hádegisverður (Skrúður, Hótel Sögu)
" 13:00 Afgreiðsla mála
" 15:00 Kaffihlé (mötuneyti BÍ)
" 15:15 Afgreiðsla mála
" 16:20 Önnur mál
" 16:40 Kosningar
" 17:15 Fundarslit

" 19:00 Árshátíð Landssamtaka sauðfjárbænda í Súlnasal, Hótels Sögu