
Sáttarferlið rofið?
05.01.2017
Fréttaflutningur af stjórnarmyndunarviðræðum síðustu daga hefur vakið ugg hjá bændum og vafalaust fleirum sem byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu víða um land. Hugmyndir eru uppi um að fara í stórfelldar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins og taka úr sambandi það sáttarferli sem Alþingi markaði síðastliðið haust þegar ákveðið var að setja á fót samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.
Helstu tíðindin sem borist hafa úr stjórnarmyndunarviðræðunum eru að stefnt verði að frekari tollalækkunum á ostum og svína- og alifuglakjöti. Þessar fregnir koma bændum á óvart enda nýbúið að gera róttækar breytingar á tollaumhverfinu með nýlegum samningi við Evrópusambandið um aukna tollfrjálsa kvóta á búvörum. Áhrif þess samnings eru afar neikvæð fyrir íslenskan landbúnað en útreikningar sýna beint fjárhagslegt tjón upp á hundruð milljóna króna. Á sama tíma þurfa bændur að ráðast í viðamiklar fjárfestingar vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða búfjár sem eru strangari en í mörgum viðskiptalöndum okkar.
Hverju vilja stjórnmálamenn fórna?
Bændur hafa oftsinnis bent á þann fórnarkostnað sem aukinn innflutningur á erlendum búvörum eins og kjöti, grænmeti og mjólkurvörum hefur í för með sér. Það kann að vera að hægt sé að flytja inn ódýran mat sem á uppruna sinn í fjarlægum löndum þar sem kröfur um heilnæmi afurða og aðbúnað dýra eru lakari en á Íslandi, vinnulöggjöf er í skötulíki og launastig annað en við eigum að venjast. Um leið og innflutningur eykst á sambærilegum vörum og hér eru framleiddar um allt land mun byggðamynstur breytast og bændum fækka hratt.
Íslensk búvöruframleiðsla skipar sér á bekk með þjóðum sem nota hvað minnst af sýklalyfjum í framleiðslunni. Heilbrigði búfjár er betra en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Lyfjaþolnar bakteríur hafa ekki fundist hér á landi og meiri kröfur eru gerðar til framleiðenda varðandi eyðingu á salmonellasmituðum afurðum og þannig má lengi áfram telja. Vilja stjórnmálamenn og kjósendur þeirra gefa eftir þessa stöðu í skiptum fyrir ódýrar matvörur að utan?
Ræðum saman um starfsumhverfi landbúnaðarins
Ýmsir stjórnmálamenn hafa barið sér á brjóst og vilja umsvifalaust breyta fyrirkomulagi við sölu og verðlagningu á mjólk og mjólkurafurðum. Þar er við lýði skipulag sem hefur skilað neytendum og bændum góðum ábata. Það hefur m.a. verið rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2015. Ein af niðurstöðum þeirrar skýrslu var að mjólkurafurðir hefðu hækkað minna í verði en aðrar neysluvörur á árabilinu 2003-2013. Verðlagning á mjólk er opinber og tryggt að almenningur fær grunnvörur á afar hagstæðum kjörum. Þetta hefur að vísu verið þyrnir í augum ýmissa stórkaupmanna sem ekki geta í ljósi stærðar sinnar krafist hærri afslátta en kaupmaðurinn á horninu fær.
Bændur eru ekki mótfallnir því að endurskoða starfsumhverfi sitt í samvinnu við stjórnvöld og það gera þeir reglulega. Einhliða yfirlýsingar og sleggjudómar um rekstur Mjólkursamsölunnar og hennar rekstrarumhverfi eru ekki til þess fallnar að skila okkur fram á veginn.
Stefnumörkun í þágu heildsala
Sú stefnumörkun sem virðist vera að fæðast í stjórnarmyndunarviðræðunum kemur ekki til móts við þær kröfur sem uppi eru í samfélaginu um dýravelferð og heilnæmi matvæla. Aftur á móti virðast talsmenn heildsala og matvælainnflytjenda fá kröfur sínar uppfylltar þannig að þeir geti hrifsað til sín stærri hluta virðiskeðjunnar en hingað til.
Umræða á skjön við tíðarandann
Undanfarin ár hefur umræða í samfélaginu um mikilvægi dýravelferðar, aðbúnaðar húsdýra og heilnæmi matvöru stóraukist. Fólk hlýtur því að spyrja sig hvort það sé eðlilegt að ný ríkisstjórn marki þá stefnu að auka framboð af innfluttri matvöru þar sem neytendur fá litlar eða engar upplýsingar um hvort að kröfur þeirra séu uppfylltar.
Ekki má gleyma að aukinn innflutningur á vörum sem við getum framleitt hér á Íslandi mun auka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það er í andstöðu við þær skuldbindingar sem ríki heimsins, þar á meðal Ísland, hafa undirgengist til að draga úr útblæstri og sporna við hlýnun jarðar.
Eflum íslenska matvælaframleiðslu
Hér hafa verið nefndir nokkrir mikilvægir þættir sem vonir stóðu til að teknir yrðu til umræðu í því samráðsferli sem Alþingi vísaði mótun landbúnaðarstefnu í við afgreiðslu búvörusamninga síðastliðið haust. Bændur hafa fullan hug á að taka þátt í því ferli með opnum huga og með það að markmiði að efla íslenska matvælaframleiðslu og komast að niðurstöðu sem er í þágu bænda og almennings á Íslandi. Það er því von Bændasamtaka Íslands að ný ríkisstjórn taki það ekki úr sambandi heldur standi við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Einhliða tollalækkanir og stórkarlalegar yfirlýsingar um aukinn innflutning á mat ógna tilvist íslenskrar matvælaframleiðslu og eru feigðarflan að mati bænda.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.