Beint í efni

Saputo lokar í Evrópu

19.03.2013

Það heyrir til tíðinda í mjólkuriðnaðinum þegar stórar afurðastöðvar fara út af stórum mörkuðum, en það er einmitt að gerast þessa dagana. Það er kanadíska félagið Saputo sem hefur ákveðið að draga sig út af evrópska markaðinum. Sá markaður hefur verið mjög erfiður eftir 2008 og þó svo að Saputo sé risastórt á íslenskan mælikvarða, þá á það einfaldlega ekki möguleika í samkeppni við stóru félögin á evrópska markaðinum.

 

Afurðastöð Saputo í Heiden í Þýskalandi, sem hefur sérhæft sig í ítölskum sérostum, verður lokað og afuraðstöðinni í Newcastle Emlyn í Wales einnig, en þessi afurðastöð hefur eingöngu verið í mozzsarellaostum. Þessar tvær stöðvar keypti Saputo árin 2006 og 2007.

 

Í tilkynningu frá Saputo segir að rekstur félagsins í Evrópu hafi ekki gengið vel vegna þess að félagið hafi ekki að ráða yfir nægu mjólkurmagni til þessara tveggja afurðastöðva, né sjái félagið fram á hagnað hvorki til skamms né langs tíma. Því sé eini kosturinn í stöðunni að loka. Um 140 starfsmenn missa þar með vinnuna sína og margir kúabændur þurfa að leita að nýjum kaupendum að mjólkinni, en árleg innvigtun þessara tveggja afurðastöðva er um 130 milljónir lítra.

 

Saputo  er tólfta stærsta afurðafélag heims með um 6 milljarða lítra mjólkur og starfrækir eftir lokunina 47 aðrar afurðastöðvar. Félagið er stærsta afurðafélag Kanada, það þriðja stærsta í Argentínu og er eitt af stærstu félögunum í Bandaríkjunum sem framleiðir osta/SS.