Samvinnufélög framleiðenda henta
15.03.2016
Enn á ný sannast að það að reka afurðastöðvar sem samvinnufélög kúabænda er það rekstrarform sem hentar einna best þegar horft er til mjólkurvinnslu. Þetta sést t.d. vel þegar horft er yfir markaðinn í Evrópu og hvaða afurðastöðvaverð eru í gildi hjá hverju félagi og fyrirtækjum. Þau félög sem eru í sameiginlegri eigu bænda skipa sér öll í fremstu röð þeirra sem borga best til bænda auk þess sem þau eru algjörlega leiðandi á verðmyndunarmarkaði, þ.e. fyrst til þess að hækka verð til bænda sé þess nokkur kostur.
Víða í Evrópu, og reyndar annarsstaðar í heiminum einnig, tíðkast að kúabændur leggja inn afurðir sínar hjá einkafyrirtækjum eða afurðavinnslum sem þeir eiga ekki eignaraðild að og það er svo sem ágætt á meðan vel gengur en eftir að afurðastöðvaverð erlendis fór að lenda í hremmingum á síðasta ári hafa þessir kúabændur lent mun verr í verðlækkunum en aðrir. Auk þess hafa afurðafélög bænda sagt upp mörgum af þessum samningum við kúabændur enda líta yfirleitt stjórnir samvinnufélaga bænda þannig á að mikilvægasta verkefnið sé að hlúa að eigendum sínum þegar sverfir að.
Við sögðum frá því í desember að FrieslandCampina, samvinnufélag kúabænda í Hollandi, hafi ákveðið að segja upp samningum við 443 kúabú og nú hefur Arla, samvinnufélag kúabænda í mörgum löndum Norður-Evrópu, gert slíkt hið sama og sagt upp 50 samningum við kúabændur í Englandi. Þessi 50 kúabú hafa hingað til lagt inn 40 milljónir lítra mjólkur sem félagið þarf þá ekki að vinna úr á næsta ári en svona uppsagnir eru alltaf gerðar með 12 mánaða fyrirvara. Þess má geta að þeir bændur sem ekki eru eigendur að afurðastöð fá alltaf mun lægra verð en hinir sem eru aðilar að afurðastöð. Í tilfelli Arla fá t.d. umrædd 50 kúabú nú 29,2 íslenskar krónur fyrir líterinn en afurðastöðvaverð til eigenda er hins vegar 43,4 íslenskar krónur á líterinn að lágmarki/SS.