Beint í efni

Samvinnufélög framleiðenda besta leiðin!

04.12.2010

Auðhumla, sem er móðurfélag MS, er samvinnufélag flestra íslenskra kúabænda og slíkt form á eignarhaldi fyrirtækja sem vinna úr hrámjólk er mjög algengt víða um heim. Þannig er t.d. stærsta fyrirtæki heims í afurðavinnslu, Fonterra, framleiðendasamvinnufélag. Nýverið tóku sauðfjárbændur í Nýja-Sjálandi stórt skref í átt að betri afkomu þegar þeir ákváðu að stofna samvinnufélag sitt utan um ullarvinnslu. Fyrirtækið Wool Partners Cooperative (WPC) á þó langan veg fyrir höndum við að ná utan um ullarvinnslumálin en fær

 

fullan stuðning stjórnar Fonterra.
 

Stjórnarformaðurinn, Sir Henry van der Heyden, hefur t.a.m. opinberlega hvatt sauðfjárbændur til þess að stíga skrefið til fulls og ganga til liðs við WPC enda muni það tryggja betri framtíð ullarvinnslu landsins að hans sögn. „Ull er á engan hátt frabrugðin mjólkurvörum. Vel skipulagt framleiðendasamvinnufélag hefur sýnt sig að vera lang besta kerfið til þess að koma vörum frá bændum til neytenda. Fyrirtækjunum er stýrt af bændunum sjálfum og aðal hagsmunir eru alltaf að skila bændum góðri afkomu“, sagði Sir Henry í tilkynningu frá Fonterra.
 

Í máli hans kom einnig fram að til þess að ná árangri á heimsmarkaði þurfi fyrirtækin ákveðna stærð svo hægt sé að koma til móts við stóra alþjóðlega kaupendur, stærri fyrirtæki eiga einnig auðveldara með að skila bændunum enn betri afkomu. „Þegar við stofnuðum Fonterra var helsti ávinningurinn sá að við gerðum okkur grein fyrir því að raunveruleg samkeppni á sér ekki stað við mjólkurhúsdyrnar heldur úti á markaðinum og það sama á við um ullarvinnslu“, bætti Sir Henry við.

 
Það má öllum, sem það vilja sjá, vera ljóst að með því að stofna Fonterra tóku kúabændurnir í Nýja Sjálandi stórt skref upp úr annarskonar rekstrarformi og niðurstaðan er sú að í dag er Fonterra leiðandi á sínu sviði á heimsvísu og eitt af virtari framleiðslufyrirtækjum heimsins. „Ég trúi því að nákvæmlega sömu hagsmunir eigi við um sauðfjárframleiðslu og ef ullarframleiðendur slá til og sameina krafta sína þá eigi það skref eftir að skila þeim einnig í fremstu röð í heiminum, líkt og Fonterra er í dag“, sagði Sir Henry að lokum.