
Samþykktar tillögur aðalfundar LK 2018
10.04.2018
32 tillögur voru samþykktar á aðalfundi Landssambands kúabænda, sem haldinn var á Selfossi dagana 6.-7. apríl. Meðal þeirra eru drög að stefnumótun í mjólkur- og kjötframleiðslu, undirbúningur fyrir atkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu, nýr verðlagsgrundvöllur kúabúa, verðlagning mjólkurafurða, framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu og vöktun á fjölda gripa til nautakjötsframleiðslu svo eitthvað sé nefnt.
Fundargerð fundarins verður sett á vefinn fljótlega.
Hér má lesa allar þær tillögur sem samþykktar voru á fundinum:
Tillögur samþykktar á aðalfundi LK á Selfossi 6.- 7. apríl 2018
- Endurskoðun félagskerfis bænda.
Aðalfundur LK haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnar að óska eftir að fá að vera virkur þátttakandi í vinnu Bændasamtaka Íslands við að endurskipuleggja félagskerfi bænda, með það að markmiði að áhrif kúabænda innan félagskerfisins verði sem best tryggð. Jafnframt vekur fundurinn athygli á nauðsyn félagslegrar samstöðu, sem ekki má rofna þrátt fyrir skiptar skoðanir í einstökum málum.
- Búreikningar.
Aðalfundur LK haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 vekur athygli á nauðsyn þess að á hverjum tíma liggi fyrir upplýsingar um rekstur, efnahag og afkomu kúabúa. Því hvetur fundurinn stjórn LK til að þrýsta á Hagstofu Íslands að standa skil á þessum upplýsingum
- Veffræðsla.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, leggur til að hlé verði gert á veffræðslu LK, jafnframt því að þau erindi sem nú er að finna á Veffræðslu LK, verði gerð aðgengilegri fyrir bændur.
Greinargerð: Í september 2012 hófst tveggja ára tilraunaverkefni Landssambands kúabænda sem fékk nafnið Veffræðsla LK og snérist um að koma fræðsluefni út til bænda á fyrirlestraformi. Þar til LK hóf þetta frumkvöðlastarf hafði ekki verið til nokkuð sambærilegt efni fyrir bændur hér á landi. Í upphafi voru móttökur framar vonum en frá árinu 2013 hefur áhorf á fyrirlestra sigið niður jafnt og þétt og svo virðist sem þetta form nái, að óbreyttu, ekki eins vel út til notenda og í upphafi. Með stórauknu aðgengi að margskonar efni og fræðslu á veraldarvefnum og á ýmsum samfélagsmiðlum er eðlilegt að endurskoða þessa fræðsluleið. Aðgengi að forriti því er heldur utanum veffræðsluna er nokkuð kostnaðarsamt og þungt i vöfum. Ljóst er að með færslu fyrirlestranna á opnara aðgengi í gegnum aðrar lausnir sem í boði eru muni bæði auðvelda aðgengi bænda að fræðsluefninu og spara samtökunum kostnað við aðgengi að tilætluðu forriti.
- Rekstrarkostnaður búa.
Aðalfundur LK haldinn á Hótel Selfossi 6.-7. apríl 2018, beinir því til stjórnar að kanna mismunandi rekstrarskilyrði kúabúa eftir staðsetningu þeirra, bæði vegna náttúrulegra skilyrða, mismunandi verðlags og þjónustu s.s. eftir því hvort rafmagn er þriggja fasa eða ekki.
- Upphæð félagsgjalda til Landssambands kúabænda.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 samþykkir að upphæð árgjalds til samtakanna skuli vera 0,30 kr pr. líter mjólkur sem lagður er í afurðastöð og 500 kr pr. grip í UN, KU og K flokkum sem slátrað er í afurðastöð, utan úrkasts. Árgjald hollvina samtakanna skal vera 4.000 kr.
- Aðgerðir vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 tekur undir ályktun Búnaðarþings frá 6. mars 2018 og skorar á stjórnvöld að niðurstaða EFTA dómstólsins í málum E-2/17 og E-3/17 frá 14. nóvember 2017 verði ekki innleidd óbreytt og leitað verði eftir samningaviðræðum við ESB. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi vörð um íslenska kjötmarkaðinn og heilbrigði íslenskra búfjárstofna sem og lýðheilsu manna með því að gerð sé sama krafa á framleiðsluháttum innfluttrar kjötvöru og innlendrar framleiðslu á kjötvörum.
Greinargerð: Tollasamningur ESB frá september 2015 og dómur EFTA dómstólsins um að Íslendingar megi ekki krefjast þess að hrátt kjöt sé í frysti a.m.k 30 daga áður en að það er flutt hingað til lands standist ekki EES samninginn er mjög alvarlegt mál fyrir íslenskan landbúnað sem og lýðheilsu manna. Áhrifin af innflutningi á ófrosnu kjöti mun hafa alvarlegar afleiðingar á landbúnaðinn á Íslandi og mögulega lýðheilsu landsmanna. Þessi hugsanlegi innflutningur á hráu kjöti er á ábyrgð stjórnvalda sem eru fulltrúar þjóðarinnar í alþjóðasamningum um landbúnað sem og á lýðheilsu landsmanna. Það er þess vegna sem bændur og tilvist landbúnaðar á Íslandi er algjörlega háður velvilja og framsýni stjórnvalda hverju sinni og því skiptir máli að stjórnvöld standi vörð um lýðheilsu landans sem og landbúnaðinn í alþjóðasamskiptum.
Augljóst var að 13. grein EES-samningsins var ætlað að skapa möguleika fyrir einstök lönd að bregðast við þar sem sérstakir hagsmunir voru í húfi. Greinin hljóðar þannig: „Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.“ Í nýjum dómi EFTA-dómstólsins er ekki fjallað efnislega um þau atriði sem haldið hefur verið fram í málsvörn íslenskra stjórnvalda, þ.e. að heimilt sé að halda uppi einhverjum lágmarksvörnum til að vernda það sérstaka heilbrigðisástand manna og dýra sem ríkir hér á landi. Dómurinn virðist eingöngu byggja á því að þar sem markmið matvælalöggjafarinnar sé að samræma löggjöf á þessu sviði innan EES-svæðisins komi ekki til álita að heimilt sé fyrir einstök lönd sem eiga aðild að samningnum að beita fyrir sig 13. grein hans. Varla er vafi á að lögfræðingar líta þessa túlkun misjöfnum augum og jafnvel er hægt að álykta að hér sé beinlínis verið að breyta EES-samningnum því að 18. gr. áskilur berum orðum að 13. gr. skuli gilda eins og fyrr segir. Sé svo, stenst það vitaskuld ekki þar sem allt annað ferli þarf að eiga sér stað til að gera breytingar á honum. Dómstólaleiðin á vettvangi EES hefur nú verið tæmd í þessu máli og að öðru jöfnu er íslenska ríkið skuldbundið til að hlíta fyrrgreindum dómi. Standi hins vegar almennur vilji til að verja okkar sérstöðu ber stjórnmálamönnum að slá skjaldborg um hana og leita til þess allra löglegra leiða. Löggjöf og reglur eru mannanna verk.
- Tollvernd íslensks landbúnaðar.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 skorar á íslensk stjórnvöld að standa vörð um samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart innfluttum afurðum með styrkri tollvernd íslensks landbúnaðar. Magntollar á búvörur verði uppreiknaðir til verðlags dagsins í dag og leitað verði allra leiða til að nýta heimildir til að leggja tolla á innfluttar búvörur sem einnig eru framleiddar hér á landi. Þá verði innflutt kjöt umreiknað í ígildi kjöts með beini þegar um beinlausar og unnar afurðir er að ræða, við útreikninga á nýtingu gildandi tollkvóta líkt og er gert innan Evrópusambandsins. Jafnframt að gerð verði sú krafa að innfluttar landbúnaðarafurðir séu framleiddar við sömu eða sambærilegar kröfur og gilda hér á landi.
Greinargerð: Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg aukning í innflutningi á landbúnaðarvörum. Á sama tíma eru bændur innanlands að takast á við metnaðarfullar aðbúnaðarreglugerðir til að bæta aðbúnað sem er vel. Til að fara í þær fjárfestingar er mikilvægt að breytingar í ytra umhverfi landbúnaðarins séu viðráðanlegar samhliða því. Enn á eftir að meta hvaða áhrif tollasamningur við ESB frá 2015 og nýfallinn EFTA dómur mun hafa á innlenda búvöruframleiðslu. Því er nauðsynlegt að ræða við stjórnvöld um tollverndina og hvernig hún kemur til með að þróast á gildistíma núverandi búvörusamnings. Í þeim viðræðum verði horft til þeirrar staðreyndar að framleiðsluskilyrði hér á landi eru allt önnur en þeirrar búvöru sem er verið að flytja inn, þegar horft er til stærðar framleiðslunnar og kostnaðar við aðföng og laun. Ekki þarf að fara lengra en til Noregs og Svíþjóðar til að sjá hver reynslan er af því að leyfa innflutning mjólkurvara á lágum tollum. Í Noregi hefur allri aukningu í neyslu mjólkurvara vegna íbúafjölgunar frá því um árið 2000 verið sinnt með innflutningi og í Svíþjóð er markaðshlutdeild innlendrar mjólkurframleiðslu einungis um 55% af mjólkurvörumarkaðnum og fer minnkandi. Slíkum breytingum ætti íslenskur landbúnaður mjög óhægt með að mæta með útflutningi og því mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.
- Nýr viðskiptasamningur við Bretland.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnvalda að standa vörð um stöðu íslensks landbúnaðar í viðskiptasamningum við Bretland í kjölfar útgöngu þess úr Evrópusambandinu.
- Upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 leggur þunga áherslu á að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að tryggja að í gildi séu viðeigandi reglur um vandaðar og áberandi upprunamerkingar á öllum matvælum og öðrum landbúnaðarafurðum, innlendum sem innfluttum. Fundurinn leggur ennfremur áherslu á að upplýsingar um uppruna matvara eigi ávallt að vera aðgengilegar fyrir neytendur, hvort sem er í verslunum, mötuneytum eða veitingastöðum.
Greinargerð: Skýrar og áberandi upprunamerkingar og innihaldslýsingar matvæla eru sjálfsögð krafa fyrir neytendur og framleiðendur. Með auknum innflutningi er mikilvægt að upplýsingar á umbúðum matvæla séu skýrar en í dag er einungis hægt að sjá upprunaland matvælanna, oft í örsmáu letri. Án merkinga sem snúa m.a. að ferli vörunnar (merkingar á kjötafurðum um hvar dýrið er alið, slátrað og vara unnin), framleiðsluháttum og lyfjanotkun, er ógerlegt fyrir neytendur að taka sannarlega upplýst val og skekkir það einnig samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda. Einnig leggur fundurinn áherslu á að reglur séu skýrar um hvernig eftirliti með upprunamerkingum sé háttað og á hvers ábyrgð.
- Endurskoðun tollasamnings.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl, 2018 krefst þess að íslensk stjórnvöld fari fram á endurskoðun tollasamnins sem gerður var á milli Íslands og Evrópusambandsins 17. september 2015 og tekur gildi 1. maí 2018, en algjör forsendubrestur hefur orðið í útflutningsmöguleikum á íslenskum mjólkurvörum við útgöngu Bretlands úr Evrópusamandinu (Brexit).
Greinargerð: Vegna útgöngu Bretlands úr ESB hefur íslensk mjólkurframleiðsla ekki aðgang að Bretlandsmarkaði í gegnum áðurnefndan EES samning eins og til stóð við gerð samningsins. Bretlandsmarkaður er með tæplega 70 milljónir íbúa og er annar stærsti markaðshluti ESB á eftir Þýskalandi og þar að auki næst okkur í fjarlægð og aðgengi að skilvirku flutningakerfi og einn verðmætasti markaðshluti Íslands innan ESB. Það má því segja aðstæður sem ekki lágu fyrir við gerð samningsins hafi leitt til þess að algjör forsendubrestur sé orðinn fyrir samningnum hvað varðar hagsmuni íslenskrar mjólkurframleiðslu.
- Verðlagsgrundvöllur kúabús.
Aðalfundur Landssambands kúabænda á Selfossi 6.- 7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að þrýsta á um gerð nýs verðlagsgrundvallar.
Greinargerð: Núverandi verðlagsgrunnur er löngu orðinn úreltur enda að stofni til orðinn meira en 18 ára gamall. Á þessum tíma hafa orðið stórstígar breytingar á rekstarumhverfi mjólkur og nautakjötsframleiðslunnar og ljóst að allar tölur í grunninum eru í engum takti við raunveruleikann.
- Verðlagning mjólkurafurða.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6. – 7. apríl beinir því til stjórnar LK að skora á ráðherra landbúnaðarmála að ljúka útfærslu 12. greinar núgildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar og koma henni í framkvæmd.
Greinargerð:
Núverandi samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar var samþykktur á Alþingi 13. september 2016. Þrátt fyrir skýr ákvæði um verðlagningu í samningnum, voru þau ákvæði ekki innleidd í lög nr. 99/1993 og hafa engar skýringar verið gefnar á því hvers vegna slíkt var ekki gert. Samkvæmt núgildandi lögum skal Verðlagsnefnd búvöru ákvarða lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda og heildsöluverð ákveðinna mjólkurafurða. Síðustu fimm ár hafa liðið löng tímabil þar sem ýmist hefur ekki verið skipað í nefndina eða að nefndin hefur ekki tekið ákvarðanir um verðlagningu. Sem dæmi má nefna að í mars 2018 eru liðnir rúmir 14 mánuðir frá síðustu verðákvörðunum Verðlagsnefndar og á 22 mánaða tímabili frá 1. október 2013 til 31. júlí 2015 tók nefndin enga nýja ákvörðun um verðlagningu. Í síbreytilegu umhverfi nútímasamfélags og lifandi samkeppni á matvælamarkaði er mjólkuriðnaði í landinu nauðsynlegt að hafa möguleika til að bregðast við breytingum í framboði og eftirspurn, með eðlilegum breytingum á heildsöluverði framleiðsluvara. Með síaukinni samkeppni á mörkuðum fyrir mjólkurafurðir, innlendar jafnt sem erlendar, verður enn mikilvægara að allur innlendur mjólkuriðnaður geta brugðist við breytingum í verði og framboði mjólkurafurða. Tollasamningur Íslands við ESB sem tekur að fullu gildi varðandi markaðsaðgang ýmissa mjólkurafurða til Íslands þann 1. maí 2018 felur einnig í sér mikla ógnun við afkomu mjólkuriðnaðar hér á landi, þar sem heildsöluverð mikilvægra vöruflokka eins og smjörs, tekur í engu mið af eftirspurn, hráefnis- eða vinnslukostnaði. Það leiðir af sér að framlegð af smjörframleiðslu er stórkostlega neikvæð. Opinber heildsöluverðlagning á einstökum vöruflokkum gerir iðnaðinum einnig nær ókleyft að takast á við aukna samkeppni sem leiðir af nýja tollasamningnum. Óbreytt fyrirkomulag við verðlagningu mun hafa áhrif á mjólkurframleiðendur, annað hvort í verði eða magni og mun því fyrr eða síðar hafa neikvæð áhrif á afkomu bænda. Eftirfarandi texti er úr núgildandi samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar:
12. gr.
Verðlagning
12.1 Afurðastöðvum verður heimilað að verðleggja mjólk til framleiðenda og ákvarða heildsöluverð á mjólkurafurðum. Þó skal opinber aðili ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks fram til 1. janúar 2021, sem byggi á skilgreindri vísitölu framleiðslukostnaðar og upplýsingum um afkomu bænda.
12.2 Afurðastöð sem tekur á móti að minnsta kosti 80% mjólkur verður gert skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt og greiða þeim sama verð óháð búsetu. Þá verður slíkri afurðastöð skylt að selja afurðir á sama heildsöluverði hvar sem er á landinu. Einnig að selja öðrum vinnsluaðilum tiltekið magn af mjólk og mjólkurafurðum til frekari vinnslu samkvæmt verðskrá.
12.3 Opinber aðili skal setja markaðasráðandi afurðastöð tekjumörk á innlendum markaði. Tekjumörk skulu taka mið af breytilegum og föstum kostnaði auk arðsemi sem skilgreind er af opinberum aðila. Bókhaldslegur aðskilnaður skal vera á innlendri og erlendri starfsemi markaðasráðandi afurðastöðvar”.
- Misvægi í sölu á fitu og próteini.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 skorar á mjólkuriðnaðinn að leita allra leiða til að bregðast við þeim aðkallandi vanda er felst í misvægi í sölu á prótein- og fitugrunni og hafi sem minnst áhrif á tekjur bænda.
- Undirbúningur atkvæðagreiðslu um kvótakerfi.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.- 7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að undirbúa atkvæðagreiðslu um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu í samstarfi við Bændasamtök Íslands.
- Framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.- 7. apríl 2018 ályktar að halda skuli í framleiðslustýringu í formi greiðslumarks í mjólkurframleiðslu. Hámark skuli sett á verð greiðslumarks og viðskipti með greiðslumark skuli fara fram í gegnum opinberan aðila. Fundurinn beinir því til stjórnar að greina hvaða leiðir séu skilvirkastar í þeim efnum.
- Innlausn á greiðslumarki.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6. – 7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að tryggja að öll viðskipti með greiðslumark milli lögbýla fari fram í gegnum innlausnarmarkað ríkisins.
- Stefnumótun í mjólkurframleiðslu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, samþykkir þau drög að stefnumótun samtakanna í mjólkurframleiðslu til næstu 10 ára sem lögð voru fyrir fundinn og beinir því til stjórnar að ljúka vinnu og stefna að útgáfu fyrir árslok 2018. Stefnumótun verði kynnt á haustfundum samtakanna haustið 2018.
Greinargerð: Aðalfundur Landssambands kúabænda 26.-27. mars 2017 samþykkti ályktun um að ráðast í stefnumörkun í mjólkurframleiðslu á Íslandi til næstu 10 ára. Ný stefnumörkun í mjólkurframleiðslu leysir af hólmi stefnumörkun samtakanna fyrir tímabilið 2011-2021 sem samþykkt var á aðalfundi LK árið 2011. Síðan sú stefnumörkun var samþykkt hafa orðið miklar breytingar í starfsumhverfi kúabænda. Stjórn LK setti á fót vinnuhóp um nýja stefnumótun á haustmánuðum 2017. Í honum áttu sæti Arnar Árnason, bóndi á Hranastöðum og formaður LK, Elín Heiða Valsdóttir, bóndi í Úthlíð, Davíð Logi Jónsson, bóndi á Egg, Rafn Bergsson, bóndi í Hólmahjáleigu, Pétur Diðriksson, bóndi á Helgavatni, Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi á Klauf, Anna Sólveig Jónsdóttir, bóndi á Svalbarða, Ingi Björn Árnason, bóndi á Marbæli, Björgvin Gunnarsson, bóndi á Núpi, Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), og Jóhanna Hreinsdóttir, bóndi í Káraneskoti og stjórnarformaður SAM. Starfsmaður vinnuhópsins var Margrét Gísladóttir. Hópurinn skilaði svo af sér drögum að stefnumótun til stjórnar LK sem tekin er fyrir á aðalfundi LK, 6.-7. apríl 2018.
- Framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til menntamálaráðherra og Landbúnaðarháskóla Íslands að móta stefnu um framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands. Aðalfundur Landssambands kúabænda lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu skólans og óljósri framtíðarstefnu. Menntun og rannsóknarstarf er afar mikilvægt til þess að landbúnaður og byggð um allt land vaxi og dafni. Leitað verði allra leiða til að styrkja stöðu náms og rannsókna tengdum landbúnaði.
- Kolefnisspor nautgriparæktarinnar.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, beinir því til stjórnar LK að gerð verði úttekt á losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskri nautgriparækt í samstarfi við stjórnvöld. Einnig verði unnin aðgerðaáætlun með það að markmiði að jafna kolefnisspor greinarinnar.
Greinargerð: Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beindi því til stjórnar LK að skoða ávinning þess og kostnað við að láta meta kolefnisspor íslensks kúabúskapar til samanburðar við kolefnisspor innfluttra afurða. Stjórn LK hefur fengið tilboð í skýrslugerð frá fyrirtæki sem hefur m.a. unnið sambærilega vinnu fyrir Landssamtök sauðfjárbænda og garðyrkjubændur. Framkvæmd mats á losun gróðurhúsalofttegunda í nautgriparækt er í takt við markmið endurskoðunar búvörusamninga varðandi loftslags- og umhverfismál sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði til í nefndaráliti sínu á 145. löggjafarþingi 2015–2016 (Þingskjal 1591-680. mál). „Meirihlutinn leggur til að við endurskoðun samninga 2019 liggi fyrir heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum sem snerta loftslags- og umhverfismál. Skerpa þarf á þeim atriðum í samningunum sem snúa að umhverfismálum og setja fram tölusett markmið og áfanga í þeim verkefnum sem bændur og ríkisvaldið hyggjast vinna sameiginlega að á næstu árum. Meirihlutinn er sammála um mikilvægi þessara verkefna og telur að þau þurfi að setja sterkan svip á endurskoðunina 2019.” Hér er m.a. átt við: vegvísi um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.
Framkvæmd mats á kolefnisspori nautgriparæktarinnar er einnig í takt við markmið Parísarsamkomulagsins sem íslensk stjórnvöld rituðu undir í apríl 2016 og því eðlilegt að stjórnvöld komi að þeirri vinnu að greina kolefnisspor greinarinnar.
- Lífræn framleiðsla.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að skoða með hvaða hætti hægt er að styðja frekar við lífræna framleiðslu á mjólk hér á landi.
Greinargerð: Íslenskur mjólkuriðnaður þarf að geta uppfyllt innanlandsþarfir hverju sinni og því mikilvægt að vera búin undir aukna eftirspurn eftir lífrænni mjólk. Í búvörusamningum sem tóku gildi 1. janúar 2017 er stuðningur við aðlögun að lífrænni framleiðslu nú 32-35 milljónir króna á ári út samningstímann. Einungis hluti stuðningsins gekk út árið 2017 og því ljóst að tækifæri eru fyrir bændur sem vilja snúa sér að lífrænni framleiðslu.
- Endurskoðun á aðbúnaðarreglugerð nautgripa.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að fylgja eftir ályktun frá aðalfundi samtakanna árið 2017 og endurskoða aðbúnaðarreglugerð nautgripa í samstarfi við fagráð nautgriparæktarinnar.
Greinargerð: Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beindi því til stjórnar LK að lagt verði mat á hvernig aðbúnaðarreglugerð nautgripa hafi reynst með tilliti til þess hvort þörf sé á breytingum. Aðbúnaðarreglugerð hefur verið tekin til umræðu innan Fagráðs nautgriparæktarinnar og ljóst að þörf er á breytingum svo reglugerðin virki sem skildi.
- Menntamál.
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að hafa nægt úrval af rannsóknarverkefnum tengdum nautgriparækt fyrir nemendur skólans. Fundurinn skorar einnig á Landbúnaðarháskólann að klára vinnu við námsefni í nautgriparækt sem er í vinnslu.
Greinargerð: Rannsóknir og þekking er grunnur að þróun og framförum í landbúnaði. Mikil þörf er fyrir auknar rannsóknir í nautgriparækt hér á landi. Því er nauðsynlegt að LBHÍ sjái til þess að nemendum skólans standi ávallt til boða nægt úrval af rannsóknarverkefnum í nautgriparækt.
- Stjórn Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 skorar á Bændasamtök Íslands að tilnefna að minnsta kosti einn mann úr röðum starfandi kúabænda til að sitja í stjórn Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins.
Greinargerð: Fyrir nautgriparæktina er það lífsspursmál að til sé í landinu öflug ráðgjafaþjónusta og eins fyrir RML að kúabændur séu tilbúnir að nota þá þjónustu sem RML býður upp á. Það er mikið hagsmunamál að gott samtal og samstarf sé á milli RML og kúabænda. Það er því óásættanlegt að enginn kúabóndi sitji í stjórn RML.
- Aukin ráðgjöf við byggingaframkvæmdir.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 hvetur RML til að sérhæfa sig meira í aðstoð við bændur sem eru að fara í byggingaframkvæmdir þannig að þeir geti fengið allar upplýsingar frá einum og sama aðilanum.
- Skilgreining styrkhæfs vélbúnaðar.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að marka skýrari stefnu varðandi hvað telst styrkhæft við úthlutun fjárfestingarstuðnings.
Greinargerð: Það er mikilvægt að gæta samræmis við úthlutun stuðningsins, í núverandi vinnureglum eru t.d. flórsköfukerfi styrkhæf, en ekki flórsköfuróbótar.
Samþykkt samhljóða.
- Litalyklar í Huppu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að litalyklar í Huppu verði endurskoðaðir með tilliti til þeirra litaafbrigða sem finnast í íslenska kúakyninu.
Greinargerð: Þeir eru alltof fáir og óskýrir í dag, erfitt er að merkja inn nákvæma liti og litaafbrigði. Bættir möguleikar gera bókhald nákvæmara.
Samþykkt með einu mótatkvæði.
- Stefnumótun í nautakjötsframleiðslu 2018-2028.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, samþykkir þau drög að stefnumótun samtakanna í nautakjötsframleiðslu til næstu 10 ára sem lögð voru fyrir fundinn og beinir því til stjórnar að ljúka vinnu og stefna að útgáfu fyrir árslok 2018. Stefnumótun verði kynnt á haustfundum samtakanna haustið 2018.
Greinargerð: Aðalfundur Landssambands kúabænda 26.-27. mars 2017 samþykkti ályktun um að ráðast í stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu á Íslandi til næstu 10 ára. Ný stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu leysir af hólmi stefnumörkun samtakanna fyrir tímabilið 2011-2021 sem samþykkt var á aðalfundi LK árið 2011. Síðan sú stefnumörkun var samþykkt hafa orðið miklar breytingar í starfsumhverfi kúabænda.
Stjórn LK setti á fót vinnuhóp um nýja stefnumótun á haustmánuðum 2017. Í honum áttu sæti Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi á Hofsstaðaseli, Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum, Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka, Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli, Viðar Hákonarson, bóndi á Árbót, Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska og formaður landssamtaka sláturleyfishafa, og Ólafur Ágústsson, matreiðslumaður.
Starfsmaður vinnuhópsins var Margrét Gísladóttir. Hópurinn skilaði svo af sér drögum að stefnumótun til stjórnar LK sem tekin var fyrir á aðalfundi LK, 6.-7. apríl 2018.
- Sjúkdómaskráning og lyfjanotkun.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, skorar á Matvælastofnun að taka saman og birta uppgjör á rafrænni skráningu dýralækna á nautgripasjúkdómum og lyfjameðhöndlun fyrir landið í heild. Uppgjörið taki til þriggja næstliðinna almanaksára, 2015-2017. Jafnframt taki stofnunin til athugunar hvort skráning meðhöndlana og lyfjagjafa sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Ennfremur er skorað á ráðherra landbúnaðarmála að skýra ákvæði reglugerðarinnar um úrvinnslu gagna, reglulegt uppgjör þeirra og birtingu niðurstaðna.
Greinargerð: Um þessar mundir eru liðin sex ár frá því að reglugerð 303/2012 um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun tók gildi. Samkvæmt henni skulu dýralæknar skrá meðhöndlun á gripum og lyfjagjöf í gagnagrunninn Heilsu, sem Matvælastofnun hefur umsjón með og ber ábyrgð á. Stofnunin getur veitt leyfi til úrvinnslu gagna í rannsóknaskyni, en ekki verður séð að gert sé ráð fyrir reglulegu uppgjöri á þeim heilsufarsupplýsingum sem safnað er með þessum hætti. Þær tilraunir sem gerðar hafa verið til að vinna úr þessum gögnum, gefa vísbendingar um að skráning í framangreindan gagnagrunn sé ekki eins og best verður á kosið. Úr því er mikilvægt að bæta. Einnig er afar mikilvægt fyrir nautgriparæktina að á hverjum tíma sé til staðar yfirlit yfir tíðni helstu framleiðslusjúkdóma og lyfjanotkun vegna þeirra.
- Afhending dýralyfja.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 ítrekar ályktanir frá aðalfundum LK 2015 og 2016 þess efnis að reglugerð 539/2000 um afhendingu dýralyfja verði breytt í þá veru að kúabændur geti átt ákveðin lyf svo þeir geti hafið meðhöndlun á veikum gripum tafarlaust. Hvetur fundurinn stjórn LK að sigla þessu hagsmunamáli í höfn.
- Vöktun á fjölda gripa til nautakjötsframleiðslu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 hvetur LK til að koma upp vöktun á þeim fjölda gripa sem ætlaðir eru til nautakjötsframleiðslu og gera spá um framboð á sláturgripum á hverjum tíma.
Greinargerð: Mikil vakning er nú á meðal nautgripabænda að auka nautakjötsframleiðsluna. Enda heldur vantað íslenkst nautakjöt á markaðinn. Þessi markaður er viðkvæmur og fljótt að myndast offramboð en eins og allir vita er framleiðsluferillinn langur en auðvelt er að sjá fjöldann og aldursdreifinguna í Huppunni. Það mundi hjálpa bændum að taka ákvörðun um ásetning á nautkálfum ef til væru upplýsingar um fjölda gripa í uppeldi.
- Ræktunarmarkmið nautgriparæktarinnar.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, skorar á fagráð í nautgriparækt að leggja aukna áherslu á gæði júgurs, spena og skapgerðar í ræktunarmarkmiðum nautgriparæktarinnar.
Greinargerð: Með mikilli fjölgun róbóta við mjaltir hefur það orðið miklu mikilvægara að júgur og spenagerð sé vel löguð og rétt staðsett. Afurðir hafa á sama tíma stóraukist og því er full ástæða til að nota tækifærið og bæta júgur og spena en illa settir spenar og síð júgur er oft helsta ástæða fyrir erfiðleikum við róbótamjaltir.
- Áætlun um förgun búfjár vegna sjúkdóma.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018 beinir því til stjórnar LK að tryggja í samstarfi við MAST og stjórnvöld að fullnægjandi viðbragðsáætlun sé til ef upp kemur alvarlegur sjúkdómur í búfé. Áætlun taki til fyrstu viðbragða, bótaréttar og förgunar.