
Samþykktar tillögur aðalfundar LK 2017
29.03.2017
41 tillaga var samþykkt á aðalfundi Landssambands kúabænda, sem haldinn var á Akureyri dagana 24.-25. mars. Meðal þeirra eru tillögur um stefnumörkun í mjólkur- og kjötframleiðslu, upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda, liðkun á sölu, leigu og ábúð ríkisjarða, snjallsímavæðing helstu forrita sem kúabændur nýta og ályktanir er snúa að námi tengdu nautgriparækt svo eitthvað sé nefnt.
Fundargerð fundarins verður sett á vefinn fljótlega.
Hér má lesa allar þær tillögur sem samþykktar voru á fundinum:
Tillögur samþykktar á aðalfundi LK á Akureyri 24.- 25. mars 2017
- Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að koma á fót vinnuhópi um stefnumörkun mjólkurframleiðslu í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Stefnumörkunin byggi á stefnumörkun LK frá árinu 2011-2021 og gildi til ársins 2027, en verði endurskoðuð reglulega á tímabilinu.
Greinargerð: Á árinu 2019 verður kosið um hvort bændur vilji halda í greiðslumark mjólkur frá og með 1. janúar 2021. Óháð niðurstöðu kosningar telur aðalfundur mikilvægt að greinin undirbúi sig í tíma, stillt verði upp þeim sviðsmyndum sem upp geta komið og unnin stefnumörkun útfrá þeim. Meðal annars verður litið til þeirrar umræðu sem samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga er gert að taka.
- Stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að koma á fót vinnuhópi um stefnumörkun nautakjötsframleiðslu í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Stefnumörkunin byggi meðal annars á stefnumörkun LK frá árinu 2011-2021 og gildi til ársins 2027, en verði endurskoðuð reglulega á tímabilinu. Í þessari vinnu verði framtíðarþróun markaðshlutdeildar innlendrar framleiðslu og innflutnings greind sem og þróun gæða í innlendri framleiðslu og aðrar greiningar sem að gagni koma.
- Framleiðsluspá í nautakjötsframleiðslu
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að koma á reglulegri vöktun á framleiðslu nautakjöts í samstarfi við RML og hagsmunaaðila. Teknar skulu saman nauðsynlegar upplýsingar og þær gerðar aðgengilegar fyrir bændur og hagsmunaaðila. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir skipulag framleiðslunnar og koma í veg fyrir langa bið eftir slátrun.
- Bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 krefst þess að Alþingi standi vörð um bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti, sem kveðið er á um í 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr 25/1993, enda fylgir innflutningi á hráu kjöti bæði aukin hætta á matarsýkingum og verulega aukin hætta á sýkingum af völdum lyfjaónæmra baktería, auk hættu á að nýir búfjársjúkdómar nái fótfestu hérlendis.
Greinargerð:
Um árabil hefur innflutningur verið bannaður á hráu, ófrosnu kjöti, en nú sýnist tvísýnt um það bann, bæði vegna alþjóðlegra skuldbindinga og vegna þrýstings frá þeim sem telja sig hafa hag af auknum innflutningi búvara. Því er vert að rifja upp eftirfarandi:
Hérlendis hefur náðst mjög góður árangur í baráttu gegn sjúkdómum sem borist geta með hráu, ófrosnu kjöti, s.s. salmonellu- og kamfýlóbaktersýkingum, sem endurspeglast í mun lægri tíðni slíkra sýkinga en víða annars staðar. Sú staða mun breytast með innflutningi á fersku kjöti, en frysting veikir mjög smitefni í kjöti.
Meiru varðar þó að mjög strangar reglur gilda um notkun fúkkalyfja í landbúnaði hér og notkun þeirra ein sú minnsta sem þekkist í heiminum. Þetta endurspeglast í lágri tíðni sýkinga með fúkkalyfjaónæmum sýklum, en slíkar sýkingar eru taldar mikil ógn við lýðheilsu á komandi árum.
Loks skal á það minnt að búfjársjúkdómar geta sem hægast borist með innfluttu fersku kjöti, en vegna langvarandi einangrunar íslenskra búfjárstofna eru þeir afar berskjaldaðir gagnvart framandi smitefnum.
Því er svo við að bæta að oft er mjög erfitt að greina upprunaland innfluttra matvæla og þar með átta sig á við hvaða aðstæður framleiðslan fer fram. Með innflutningi á fersku kjöti er því bæði verið að tefla í nokkra tvísýnu lýðheilsu þjóðarinnar og taka áhættu varðandi heilbrigði búfjárstofna.
- Tollvernd íslensks landbúnaðar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 krefst þess að stjórnvöld standi vörð um samkeppnistöðu íslensks landbúnaðar gagnvart innfluttum afurðum m.a. með því að tryggja nauðsynlega tollvernd, jafnframt því að bannaður verði innflutningur á landbúnaðarafurðum sem ekki eru framleiddar við jafn ströng skilyrði varðandi dýravelferð og lyfjanotkun og hér gilda.
Greinagerð:
Í óheftri samkeppni býr íslenskur landbúnaður að ýmsu leyti við mjög erfiða samkeppnisstöðu. Þar ráða miklu náttúrulegar aðstæður, svo sem veðurfar og strjálbýli, sem ekki verður við ráðið. En ekki síður má nefna strangar kröfur til aðbúnaðar, viðamikið eftirlitskerfi, strangar reglur um lyfjanotkun og bann við notkun vaxtarhvetjandi hormóna, mun hærri vexti en í samkeppnislöndum, skert aðgengi að hagkvæmustu búfjárkynjum og hömlur á bústærð, auk þess sem hlutverk landbúnaðar í að viðhalda hinum dreifðari byggðum kemur niður á ýtrustu hagræðingarkröfum.
Sé stjórnvöldum alvara í því að viðhalda öflugum landbúnaði á Íslandi verða þau að gera sér grein fyrir þessum framleiðsluaðstæðum og gera bændum kleift að mæta þeim. Þar gegnir tollvernd mikilvægu hlutverki.
Ekki þarf að fara lengra en til Noregs og Svíþjóðar til að sjá hver reynslan er af því að leyfa innflutning mjólkurvara á lágum tollum. Í Noregi hefur allri aukningu í neyslu mjólkurvara vegna íbúafjölgunar frá því um árið 2000 verið sinnt með innflutningi og í Svíþjóð er markaðshlutdeild innlendrar mjólkurframleiðslu einungis 85% af mjólkurvörumarkaðnum og fer minnkandi. Slíkum breytingum ætti íslenskur landbúnaður mjög óhægt með að mæta með útflutningi og því mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna.
- Áskorun til stjórnvalda um greiningu á áhrifum aukins innflutnings á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu.
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 krefst þess að stjórnvöld og Alþingi meti þau alvarlegu og neikvæðu áhrif sem nýstaðfestur samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur mun hafa á íslenskan landbúnað.
Greinargerð: Í september 2016 var samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur staðfestur, samhliða afgreiðslu búvörusamninga. Í samningnum eru tollkvótar á innfluttan ost auknir úr 100 tonnum upp í 610 tonn á ári eða sem samsvarar tæplega 10% af ostasölu á Íslandi árið 2016 (6.250 tonn). Rúmlega 40% af allri íslenskri mjólkurframleiðslu árið 2016 fór í ostaframleiðslu og er vart hægt að líta framhjá mögulegum áhrifum sem tilfærsla á 10% af þeirri framleiðslu getur haft á byggðir landsins.
Tollkvótar á innfluttu nautakjöti frá ESB fara einnig úr 100 tonnum í 696 tonn á næstu 4 árum. Slík aukning kemur á versta tíma ef litið er til styrkingar krónunnar en samspil þess og hve krónutala tollkvóta kjötinnflutnings er lág er staðan orðin sú að nær ógerlegt er fyrir íslenska framleiðendur að keppa við innflutt kjöt í verði.
- Útflutningur landbúnaðarafurða til Bretlands
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnvalda að hefja undirbúning að samningi um útflutning landbúnaðarvara til Bretlands, vegna útgöngu þess úr Evrópusambandinu.
- Upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn Akureyri 24. – 25. mars 2017 leggur þunga áherslu á að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að styrkja verulega regluverk um upprunamerkingar matvæla og gerðar verði kröfur um nánari innihaldslýsingar á matvælum. Skýrar og auðsæjar upprunamerkingar og innihaldslýsingar matvæla eru sjálfsögð krafa fyrir íslenska neytendur og framleiðendur. Með auknum innflutningi er mikilvægt að upplýsingar á umbúðum matvæla séu skýrar en í dag er einungis hægt að sjá upprunaland matvælanna. Án merkinga sem snúa m.a. að dýravelferð, umhverfisspori og lyfjanotkun, er ógerlegt fyrir neytendur að taka sannarlega upplýst val og skekkir það einnig samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda.
Einnig leggur fundurinn áherslu á að reglur séu skýrar um viðurlög við brotum á lögum og reglugerðum er snúa að upprunamerkingum og hvernig upplýsingagjöf til neytenda og eftirliti sé háttað.
- Eignarhald og nýting bújarða
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri þróun að fjársterkir aðilar kaupi góðar bújarðir og leggi niður búskap. Fundurinn beinir til stjórnvalda og sveitarfélaga að móta stefnu í eignarhaldi og nýtingu bújarða.
- Ríkisjarðir
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 skorar á fjármálaráðherra að liðka til um sölu, ábúð og leigu á ríkisjörðum. Erfitt hefur reynst fyrir ábúendur ríkisjarða að fara í framkvæmdir, auka við sig greiðslumark eða aðhafast nokkuð annað er snýr að búskapnum sökum þess að ekki fæst veðleyfi í jörðunum, né fást jarðirnar keyptar.
Greinargerð: Ríkiseignir hafa umsjón með fasteignum, jörðum og auðlindum í eigu ríkisins í umboði fjármálaráðuneytis. Hlutverk Ríkiseigna er að tryggja örugga og hagkvæma umsýslu þessara eigna. Með nýrri aðbúnaðarreglugerð sem tók gildi í nóvember 2014 er mikil þörf á framkvæmdum svo byggingar standist allar reglur. Það er mikilvægt að liðka til fyrir ábúendum þessara jarða svo hægt sé að ráðast í umbætur, hvort sem er með leiðum til fjármögnunar framkvæmda (veitt veðleyfi) eða til kaupa á ríkisjörðum. Að öðrum kosti er erfitt að sjá hvernig búskapur getur haldið áfram á viðkomandi jörðum og þar með viðunandi viðhald þeirra. Hér er um að ræða hagsmunamál, bæði fyrir atvinnugreinina sem og byggðalög víða um land.
- Skilgreining nýliða í búvörusamningum
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til landbúnaðarráðherra að breyta skilgreiningu á nýliða í reglugerð um stuðning í nautgriparækt þegar kemur að innlausnarmarkaði, þannig að nýliði sé sá sem hafið hefur búskap á síðastliðnum 5 árum. Að öðrum kosti er hópur bænda, sem réttilega eru nýir í búgreininni, ekki hluti af þeim nýliðum sem hafa forgang að kaupum 25% þess greiðslumarks sem hefur verið innleyst, skv. 3. mgr. 9.gr. Að óbreyttu hafa einungis þeir sem hefja búskap eftir 1. janúar 2017 rétt á forgangi að þeim 25% sem ætluð eru nýliðum en ekki til að mynda þeir sem hófu búskap í desember 2016. Breyting á skilgreiningu nýliða þegar kemur að innlausnarmarkaði er því nauðsynleg til að ná fram markmiðum búvörusamninga um aukinn stuðning við nýliða í búrekstri og til þess fallin að draga úr ósanngjarnri mismunun vegna þröngra tímamarka í skilgreiningu á nýliða í gildandi ákvæði umræddrar reglugerðar.
- Afkoma bænda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 hvetur hæstvirtan Landbúnaðarráðherra að stuðla að því að þær breytingar sem kunna að verða gerðar á starfsumhverfi landbúnaðar á Íslandi bæti afkomu bænda.
- Tryggingamál bænda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að kanna möguleika á betri kjörum til bænda meðal tryggingafélaga, í samstarfi við BÍ og önnur búgreinafélög.
Greinargerð:
Minnisblað frá Runólfi Sigursveinssyni, fagstjóra rekstrar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, febrúar 2017: Við lauslega skoðun á allnokkrum ársreikningum vegna ársins 2016 og að hluta vegna ársins 2015 virðist tryggingarpakki búanna eins og hann er skráður í bókhaldi viðkomandi búa liggja á milli 1,2 kr/ltr – 2 kr/ltr á framleiðslumagn búanna í mjólk. Þannig mætti álíta að kostnaður vegna þessa þáttar væri á ári, miðað við 150 milljón lítra framleiðslu í heild, væri á bilinu 180 milljónir króna og upp í um 300 milljónir, meðaltalið á þeim búum sem skoðuð voru sérstaklega var 1,5 kr/ltr sem samsvarar um 225 milljónum króna á ári. Inni í þessum tölum eru væntanlega fasteignatryggingar, brunatryggingar, trygging bústofns og slysatryggingar, oftar en ekki eru tryggingar véla og tækja færðar með rekstrarkostnaði vélanna, (kostnaður vegna búvéla).
- Kaup á Nautastöðinni að Hesti
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar að vinna áfram að kaupum Nautastöðvarinnar að Hesti í Borgarfirði af Bændasamtökum Íslands. Jafnframt verði unnið að sameiningu sæðingarstarfseminnar og henni stýrt frá Hesti.
- Viðræður við MAST um verklagsreglur
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að óska eftir viðræðum við MAST um samskipti og sameiginleg málefni MAST og nautgripabænda, þar sem farið verði yfir lög og reglur sem gilda um starfsgreinina og eru undir eftirliti MAST.
Jafnframt verði farið yfir verklagsreglur við skipulag eftirlitsskoðana á lögbýlum, þannig að tryggt verði að jafnræðis sé gætt, bæði hvað varðar útfærslu og tíðni eftirlitsheimsókna.
- Mat á aðbúnaðarreglugerð nautgripa
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að lagt verði mat á hvernig aðbúnaðarreglugerð nautgripa hafi reynst með tilliti til þess hvort þörf sé á breytingum.
- Skráningar á kálfum
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 leggur til að breytt verði kröfum um skráningu á burðum úr 20 dögum eftir burð í 30 daga til samræmis við almenn skýrsluskil í Huppu.
Greinargerð
Í 6. grein reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar nautgripa er gerð krafa um að kálfa skuli merkja innan 20 daga frá fæðingu og í sömu reglulgerð er Matvælastofnun falið að setja reglur um skráningar á merkingum. Í dag er gefinn sami frestur til merkingar á kálfum og skráningum í miðlægan gagnagrunn og eru vandséð rökin fyrir því að gera sömu kröfur. Mun heppilegra væri að samræma kröfur um skráningar við kröfur um skil á afurðaskýrslum.
- Fóðurnotkun í nautgriparækt
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að greina ávinning og afleiðingar þess að nýta alfarið óerfðabreytt fóður í nautgriparækt. Í þeirri vinnu verði gerð greining á kostnaði, áhrifum á fóðurúrval og aðrar greiningar sem að gagni koma.
- Kolefnisspor
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að skoða ávinning þess og kostnað við að láta meta kolefnisspor íslensks kúabúskapar til samanburðar við kolefnisspor innfluttra afurða.
Greinargerð:
Mikil umræða hefur verið um losun kolefnis við hvers kyns atvinnustarfsemi og heldur neikvæð í garð landbúnaðar, þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt. Hér er þó margt sem spilar inn í, m.a. að bændur stunda skógrækt og uppgræðslu lands í töluverðum mæli samhliða öðrum búgreinum. Framkvæmd mats á kolefnisspori greinarinnar er einnig vel í takt við markmið Parísarsamkomulagsins sem íslensk stjórnvöld rituðu undir í apríl 2016. Einnig rímar slík framkvæmd vel við greiningarskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, sem kom út í febrúar 2017.
Bændur eru almennt framsæknir í umhverfismálum og vilja vera í fremstu víglínu á þeim vettvangi. Því er mikilvægt að kortleggja kolefnisfótspor greinarinnar og kanna hvort og þá til hvaða aðgerða er hægt að grípa.
- Rannsóknir í landbúnaði
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 skorar á hæstvirta umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra að tryggja nægt fjármagn til LBHí til rannsókna í landbúnaði.
Greinargerð:
Mikil þörf er á því að rannsaka ýmis loftslagstengd mál í landbúnaði s.s. kolefnislosun á framræstum mýrum og áhrif endurheimts votlendis.
- Rannsóknir vegna losunar metangas í landbúnaði
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að setja aukinn kraft í rannsóknir á aðferðum sem geta dregið úr losun metangass í landbúnaði.
Greinargerð:
Nýjar rannsóknir í Ástralíu sýna fram á gríðarlegan samdrátt í metangaslosun nautgripa með breytingu á fóðrun, eða á bilinu 50-99%. Rannsóknirnar sýna að hægt er að draga verulega úr metangasmengun frá dýraeldi, ekki síst frá nautgripum og öðrum jórturdýrum, með því einu að gefa þeim ákveðna tegund af þangi. Hér á landi er þang unnið í stórum stíl og í einhverjum mæli verið notað í fóður fyrir búfé, en ekki er vitað til þess að virknin gagnvart gasmyndun hafi þar verið rannsökuð.
- Rannsóknir á efnasamsetningu íslensku kúamjólkurinnar
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að samtökin beiti sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á efnasamsetningu íslensku kúamjólkurinnar og samhengi við arfgerðir kúa. Skoða þarf sérstaklega arfgengi beta-kaseins í íslenska kúastofninum í samhengi við nýgengi af sykursýki 1.
Greinargerð:
Samanburðarrannsóknir hafa verið gerðar á erfðaþáttum íslendinga sem greinst hafa með sykursýki 1 og bornar saman við sambærilegar rannsóknir í Noregi. Niðurstaðan sýnir að mismunandi erfðaþættir skýra ekki muninn á nýgengi sykursýki 1 milli þjóðanna. Því er tilvalið að tengja þetta við erfðamengisrannsóknir á íslenska kúakyninu sem fyrirhugaðar eru. Sykursýki fylgir mikil lífsgæðaskerðing fyrir einstaklinga auk þess að vera þjóðfélaginu afar kostnaðarsöm.
- Framtíð LbHÍ
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að krefja stjórnvöld um svör varðandi framtíð LbHÍ, þróun hans og eflingu. Fundurinn lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu skólans og ótryggri framtíð. Menntun og rannsóknarstarf er afar mikilvægt til þess að landbúnaður og byggð um allt land vaxi og dafni. Því er brýnt að ríkisstjórnin hafi skýra stefnu í þessum málaflokki.
- Doktorsnám á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 leggur til að Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands kosti sameiginlega laun doktorsnema á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt. Verkefnið verði fjármagnað af þeim hluta Framleiðsluráðssjóðs sem féll í hlut LK og BÍ við slit sjóðsins á liðnu ári.
Greinargerð:
Á vettvangi samtaka bænda er nú unnið að innleiðingu á erfðamengisúrvali í nautgriparækt, sem að líkindum mun stuðla að einhverri mestu byltingu á kynbótastarfi nautgriparæktarinnar í áratugi. Hingað til hefur verkefnið verið fjármagnað með stuðningi úr þróunarsjóði nautgriparæktar og hlut LK í Framleiðsluráðssjóði. Einnig hefur verið sótt um stuðning við það úr Framleiðnisjóði.
Fyrir liggur að verkefnið er mjög umfangsmikið, þróun erfðamengisúrvals er ör og með innleiðingu þess þarf að endurskipuleggja marga þætti kynbótastarfsins frá grunni. Skilvirkasta leiðin til að byggja upp þekkingu hér innanlands, bæði fyrir núverandi bændur og (nýjar) komandi kynslóðir, er að styðja öfluga nemendur til framhaldsnáms á þessu fræðasviði.
- Kennsla í nautgriparækt
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 ítrekar áskorun sína til Landbúnaðarháskóla Íslands að setja aukinn kraft í kennslu í nautgriparækt, m.a. með því að semja meira af kennsluefni og gera það aðgengilegt.
- Áskorun til Auðhumlu
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 mótmælir ákvörðun stjórnar Auðhumlu um að hætta að sækja mjólk til minni framleiðenda, þ.e. að ekki sé tekið magn undir 200 ltr. í ferð. Það er ekki gott til afspurnar fyrir þetta sameiginlega félag okkar mjólkurframleiðenda að ýta út úr stéttinni þeim sem minnsta framleiðslu hafa án tillits til gæða mjólkurinnar eða stöðu þessa fólks. Viðbárur um sjálfvirkan sýnatökubúnað mjólkurbílanna eru ekki haldbær rök.
- Kynning á EUROP-kjötsmatskerfinu
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 fagnar því að nú sjáist fyrir endann á innleiðingu EUROP-matsins. Fundurinn bendir á mikilvægi þess að breytingin verði vel kynnt fyrir bændum. Einnig hvetur fundurinn LK til að fylgjast vel með þróun á verði milli flokka við upptökuna.
- Fríar fitusýrur í tankmjólk
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til stjórnar SAM að gangast fyrir því að gerð verði úttekt á orsökum þess að í tankmjólk mælast fríar fitusýrur yfir mörkum. Markmiðið er að hægt sé að leiðbeina bændum um hvernig eigi að bregðast við.
Greinargerð:
Margir mjólkurframleiðendur hafa orðið fyrir því að í tankmjólkinni mælast of háar fríar fitusýrur. Í mörgum tilfellum hefur reynst erfitt að finna orsökina en vandamálið virðist vera samspil fóðrunar og vélbúnaðarins. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir bóndann, hann verður fyrir skerðingu á afurðaverði, einnig fyrir afurðastöðvar í lakara hráefni og síðast en ekki síst laskast ímynd mjólkurinnar sem hágæða afurðar.
- Forritið Jörð.is
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til Bændasamtaka Íslands að jarðræktarforritið Jörð.is verði gert hraðvirkara, notendavænna og meira í takt við nútímann og geti reiknað út fræpöntun.
- Forritið Huppa.is og snjalltækjavæðing
Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til Bændasamtaka Íslands að einfalda forritið og gera það auðveldara í notkun fyrir bændur. Í dag er forritið of þungt í vöfum og lengi að vinna, forritið er ekki farsímavænt. Kanna þarf möguleika á að búa til smáforrit, þar sem hægt er að skrá/sækja helstu upplýsingar.
Einnig þarf að opna á fleiri möguleika og gera það líkara því sem þekkist í Worldfeng. Til dæmis til að skoða afkvæmahópa og tengja forritið betur við nautaval og framkvæmd sæðingaráætlunar.
Greinargerð:
Í nýjum búvörusamningum eru gerðar miklar kröfur um að bændur standi í skilum á afurðaskýrslum á tilsettum tíma. t.d er gert að skyldu að skrá burði innan 20 daga. Með því að búa til smáforrit fyrir forritin mun það auðvelda mönnum lífið að skrá sínar skýrslur rétt sem og að öryggi gagna verður meira.
- Upplýsingafulltrúi bænda
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til stjórnar LK að kanna hvort grundvöllur sé til að ráða upplýsingafulltrúa bænda í samstarfi við BÍ, önnur búgreinafélög og afurðasölufélög bænda. Væntanlegum starfsmanni er ætlað að svara fyrirspurnum frá fjölmiðlum, gera tillögur og skipuleggja kynningar á íslenskum landbúnaði.
- Efling tengsla um landbúnaðinn
Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 beinir því til Bændasamtakanna að semja við nokkra bændur, um að þeir bjóði heim til sín þingmönnum, forsvarsmönnum félaga, fyrirtækja og stofnana sýni þeim búið sitt og verði með fræðslu fyrir þá um það hvernig íslenskur landbúnaður gengur fyrir sig.
- Breytingar á samþykktum LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 samþykkir eftirfarandi breytingar á samþykktum félagsins:
Grein 3.2. a) verður svohljóðandi; „Fulla aðild að LK geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og halda nautgripi í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í einu aðildarfélagi samtakanna og greiði félagsgjald til LK samkvæmt grein 5.4” svo getið sé um fulla aðild í stað aðildar.
Við 3. gr. bætast eftirfarandi liðir;
„3.5 Hollvinir LK geta verið þeir einstaklingar, 18 ára og eldri, sem stunda ekki nautgriparækt í atvinnuskyni en styðja markmið samtakanna. Aðild þessara félaga fylgir enginn atkvæðisréttur eða önnur félagsleg réttindi.”
„3.6 Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. liði 3.2 a) og 3.2 b), geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir LK.”
„3.7 Full félagsaðild sbr. liði 3.2. a) og b) fellur niður hætti félagsmenn að halda nautgripi í atvinnuskyni. Segi félagsmenn sig úr félaginu tekur úrsögnin gildi 6 mánuðum frá frá mánaðarmótum eftir að tilkynning um úrsögn berst.”
- Grein 5.3. verður svohljóðandi; „Komi upp ágreiningur um fjölda félagsmanna sem telja til fulltrúakjörs hjá hverju aðildarfélagi skal stjórn LK úrskurða um málið” og tekið verði út „eftir að hafa aflað upplýsinga frá afurðastöðvum.” líkt og er nú.
- Grein 5.4. verður svohljóðandi; „Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald sem reiknast sem ákveðin upphæð pr. ltr. mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem slátrað er í afurðastöð, utan úrkasts” í stað„ Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald sem reiknast sem ákveðin upphæð pr. ltr. mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem lagður er inn í afurðastöð.” líkt og nú er.
- Einnig bætist við greinina; „Hollvinir LK samkvæmt grein 3.5 skulu greiða árgjald sem ákvarðað er á aðalfundi hvers árs.”
- e) liður í grein 5.6. verður svohljóðandi; „Ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga, ásamt gildistíma nýskráninga og úrsagna í LK. Ákvörðun um upphæð árgjalds hollvina.” í stað „Ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga” líkt og nú er.
- Grein 5.7. verður svohljóðandi; „Aðalfund skal boða eigi síðar en 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna” í stað „fyrir 10. janúar” líkt og nú er.
- Sjálfstæði aðildarfélaga LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 minnir á mikilvægi sjálfstæðis aðildarfélaganna og hvetur félögin til aukins samstarfs og sameiningar félaga þar sem því verður við komið.
- Árgjald hollvina Landssambands kúabænda
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 samþykkir að árgjald fyrir hollvini Landssambands kúabænda verði kr. 4.000,-
- Óbreytt árgjald félagsmanna LK
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 samþykkir að óbreytt árgjald til Landssambands kúabænda næsta starfsár.
- Haustfundir
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að meta kosti og galla þess að draga saman kostnað vegna haustfunda þetta árið, til dæmis með að kanna möguleikana á að sameina haustfundi aðalfundum aðildarfélaga.
- Tekjuöflun
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að meta möguleika til tekjuöflunar með styrkjum og auglýsingum á heimasíðu LK.
- Framleiðsluráðssjóður
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að hlut LK úr framleiðsluráðssjóði, sem og vaxtatekjur sem hann skilar, sé haldið aðskildum frá öðrum rekstri félagsins.
- Launamál stjórnar
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 leggur til að laun stjórnar LK verði óbreytt og uppfærist með launavísitölu.
- Verklagsreglur vegna greiðslna dagpeninga
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24. – 25. mars 2017 beinir til stjórnar að koma á verklagsreglum fyrir dagpeningagreiðslur og ferðakostnað fyrir stjórnarmenn og fulltrúa aðalfunda.