
Samstaða
30.11.2016
Hvað er að gerast í íslenskum landbúnaði ? Hvað er að gerast í íslensku þjóðfélagi ? Hvað er að gerast í heiminum ? Það hefur mikið gengið á að undanförnu og hart verið vegið að landbúnaðinum og mjög svo óvægið. Og það mun handa áfram og jafnvel versna ef við rísum ekki upp og verjum okkur með öllum tiltækum ráðum. Nýir búvörusamningar samþykktir og ný ríkisstjórn er í smíðum, mikil óvissa sem illa gengur að eyða. Það eru breyttir tímar sem við verðum að bregðast við og horfa til framtíðar. Með meiri tækni og opnari umræðu er heimurinn kominn inn í stofu hjá okkur. Þar leyfist margt sem áður þótti óhæft og óviðunandi.
Þó samningurinn sé samþykktur og búið að staðfesta hann heyrir maður mikið talað um að óvissan sé mikil og fólk viti ekki í hvorn fótinn það eigi að stíga. Á að hætta framleiðslu? Eða á að þrauka, breyta og bæta? Á að kaupa kvóta, skuldsetja sig meira og geta þá ekki bætt og breytt vinnuaðstöðu dýra og manna? Eða á að framleiða eitthvað umfram og treysta á að fá eitthvað fyrir þá mjólk? Við getum verið viss um að enginn framleiðir afurðir sem þarf að borga með. Launahækkanir hafa verið á vinnumarkaði og forsvarsmenn ASÍ tala enn hátt um að gera verði betur, en við ? Við sitjum eftir með launalækkanir, vinna meira fyrir minni laun, erum við ekki á vinnumarkaði? Eigum við ekki skilið að fá launahækkanir? ASÍ og SA (samtök atvinnulífsins) finnst allt í lagi að sverta íslenskan landbúnað og tala gegn launahækkunum til okkar, enda eru þeir ekki að berjast fyrir okkur.
Ég er held ég af einhvers konar millikynslóð í bændasamfélaginu í dag, alin upp við það að sjaldan eða aldrei var tekið frí nema rétt brugðið sér af bæ milli mjalta, og þótti það bara í fína lagi. Þetta var tíðarandinn og engum datt í hug að öðruvísi ætti það að vera. Í dag er þetta mjög að breytast og finnur maður mjög sterkt fyrir því að þetta gangi ekki lengur, það þarf að fara í frí. Kynslóðin sem er að koma lætur ekki bjóða sér þetta, það þarf að hafa efni á því að geta tekið sér frí, gera eitthvað með fjölskyldunni, sinna tómstundum barnanna og fl. Ef að afkoman í greininni ræður ekki við þetta eru fleirri sem snúa frá, börnin okkar snúa sér að öðru, þau láta ekki bjóða sér þetta. Í samfélaginu sem við búum í dag í þessum opna netheimi, er auðvelt að sjá að lífið er meira en vinna.
En hvað er til ráða? Umræðan harnar og ekkert er heilagt, dýraverndunarsinnar, vegan fólk og aðrir sem telja sig vita margt um umhirðu og umönnun dýra munu herða róðurinn, og við verðum að svara því kalli með meiri og upplýstari umræðu, við verðum að verja okkar starf af alúð og sanngirni eins og við hugsum um dýrin okkar.
Í þessum hugleiðingum mínum er mér efst í huga samstaða ef við nú stöndum saman um að vera með uppbyggilega umræðu í staðinn fyrir að rífast og rakka niður hvert annað. Að sjálfsögu erum við ekki sammála um hvaða leið er best fyrir greinina né hvernig er best að gera hlutina. Sem betur fer því annars komumst við líklega ekki að bestu niðurstöðunni. Verum gagnrýnin og segjum okkar skoðun en við verðum líka að rökstyðja okkar mál og hætta þessu skítkasti sem tíðkast hefur og gengur yfir alla netmiðla. Við getum verið sammála um einn hlut og það er að við viljum hafa íslenskan landbúnað í Íslandi. Vinnum að því saman. Til þess að það sé hægt verðum við að geta þróast í rétta átt, við þurfum að aðlagst breyttum tímum og horfa til framtíðar. Það gerist ekki ef við ætlum bara að berja höfðinu við steininn og vilja engu breyta. Við verðum að vera framsýn og helst skrefinu á undan.
Við verðum að standa saman og treysta því að þeir sem eru í forsvari fyrir okkur séu að vinna að því að leiða okkur áfram til farsælda lausna fyrir heildina. Verum samt áfram gagnrýnin en notum falleg orð. Gefum þeim samt vinnufrið og gefum okkur sjálfum vinnufrið. Stefnum til bjartrar framtíðar.
Bóel Anna Þórisdóttir
Móeiðarhvoli
Varamaður í stjórn LK