Beint í efni

Samnorrænt útlitsmat kúa

11.06.2012

Þriðja hvert ár er haldið sameiginlegt námskeið norrænna útlitsdómara kúa og var nýverið haldið slíkt námskeið í Svíþjóð. Námskeiðið var umfangsmikið og stóð í þrjá daga þar sem farið er yfir bakgrunn útlitsmats hvers þátttökulands, ýmsar nýjungar á þessu sviði, hjálpartæki og svo var varið drjúgum tíma í verklegar æfingar. Tilgangurinn með þessu sameiginlega starfi er að stilla saman strengina svo mat á útlit kúa sé áþekkt á Norðurlöndunum, en öll löndin byggja útlitsmatið á línulega skalanum sem einnig er notaður hér á landi.

 

Þó svo að kostir línulega matsins séu miklir kom í ljós á námskeiðinu að dreifni eiginleikanna er afar breytileg á milli landanna enda verið að meta mismunandi kúakyn með sama matskerfinu. Vegna þessa eru hinar verklegu æfingar mikilvægar og með því að halda samræmingarnámskeið í ólíkum löndum fæst betri innsýn í notkun matsskalans.

 

Að þessu sinni tóku engir íslenskir útlitsdómarar þátt í samræmingarnámskeiðinum en þeir verða vonandi með næst þegar svona námskeið verður haldið/SS.