Beint í efni

Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar 2017-2026

19.02.2016

Í dag, 19. febrúar 2016 hefur nýr samningur um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar verið undirritaður. Á næstunni verður samningurinn kynntur fyrir bændum, sem að því loknu greiða um hann atkvæði. Samningur þessi felur í sér stefnumörkun um breytingar á því kerfi sem verið hefur við lýði síðasta aldarfjórðung. Stefnt er að því að greiðslumarkið fjari út á samningstímanum, bæði sem viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði. Ákvörðun um afnám kvóta árið 2021 verður þó ekki tekin fyrr en á árinu 2019, að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal bænda. Stuðningsformi ríkisins er breytt og byggist á fleiri viðmiðum en áður. Samið er um breytt fyrirkomulag við verðlagningu mjólkur. Þá er í samningnum tekinn upp með nýjum hætti stuðningur við framleiðslu á nautakjöti.

Að mati Landssambands kúabænda er afar mikilvægt að náðst hafi samningur um starfsskilyrði greinarinnar til næstu 10 ára. Vegna þess hversu framleiðsluferill nautgriparæktarinnar er langur, skiptir miklu máli að greinin hafi möguleika að horfa til langs tíma.

 

Fjárhagsrammi samningsins helst svipaður frá því sem nú er, jafnframt sem stuðningurinn er að stærstum hluta greiddur út á framleiðslu afurða eins og lagt var upp með í ályktun aðalfundar LK 2015 vegna búvörusamninga. Samtökin lýsa ánægju með að stuðningskerfið nái nú einnig til framleiðslu nautakjöts.

 

Á þessum tímamótum stendur nautgriparæktin frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Undanfarin ár hefur markaður hér á landi fyrir nautgripaafurðir stækkað hratt og líkur standa til að sú þróun haldi áfram. Það er áfram megin verkefni íslenskra nautgripabænda að sinna innlendum markaði fyrir gæða afurðir á hagstæðu verði.

 

 Kröfur samfélagsins um bættan aðbúnað og velferð gripanna, ásamt væntingum nýrra kynslóða bænda um betri og nútímalegri vinnuaðstöðu, krefjast mikilla fjárfestinga á komandi árum. Til að fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir þeim fjárfestingum, er mikilvægt að stuðningur samfélagsins við greinina nýtist starfandi bændum betur en áður.

 

Þær breytingar sem verið er að gera á starfsumhverfinu eru þær mestu í þrjá áratugi. Þær verða innleiddar í skrefum á fyrri hluta samningstímans. Í samningnum eru einnig öflugir varnaglar, fari svo að mál þróist á verri veg og eru endurskoðunarákvæðin árið 2019 og 2023 þar lykilatriði.  Ákvæði samningsins um samstarf við úrvinnslu og markaðssetningu mjólkurafurða er afar mikilvægt, sem og viðurkenning á mikilvægi tollverndar mjólkurafurða. Staða smærri vinnsluaðila í mjólkuriðnaði og aðgengi þeirra að hráefni er jafnframt tryggt.

 

Með nýjum samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar opnast fyrir ný tækfæri og nýjar lausnir, sem mikilvægt er að nýta í þágu greinarinnar og þeirra sem hana stunda./BHB

 

Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar 2017-2026

 

Fréttatilkynning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 19. febrúar 2016