Beint í efni

Samningar verði endurreiknaðir og miðaðir við vexti Seðlabankans!

30.06.2010

Í dag gáfu Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið út tilmæli til fjármálafyrirtækja um að þeim beri að endurreikna þau lán sem innihalda gengistryggingarákvæði sem eru óskuldbindandi samanber dóma Hæstaréttar. Í tilmælunum segir að ekki eigi að miða við upphaflega vexti lánanna heldur heldur vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði. Ennfremur segir að geti fjármálafyrirtækin ekki 

fylgt tilmælunum af einhverjum ástæðum skuli þau gæta þess að greiðslur verði sem næst framansögðu, en þó fyllilega í samræmi við tilmælin eigi síðar en 1. september 2010.

 

Hér má sjá tilmælin í heild:

 

1. Lánasamningar sem að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis innihalda óskuldbindandi gengistryggingarákvæði sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar verði endurreiknaðir. Í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs skal miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum eða ef verðtrygging er valin lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum og beitt er þegar óvissa ríkir um lánakjör sbr. 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema aðilar semji um annað.

 

2. Meðferð lána gagnvart viðskiptamönnum fjármálafyrirtækja miði við framangreindar forsendur svo fljótt sem auðið er. Geti fjármálafyrirtæki ekki nú þegar fylgt tilmælunum af tæknilegum ástæðum skal það gæta þess að greiðslur verði sem næst framansögðu en þó fyllilega í samræmi við tilmælin eigi síðar en 1. september 2010.

 

3. Fjármálafyrirtæki endurmeti eiginfjárþörf sína í ljósi aðstæðna og tryggi að eigið fé verði einnig nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem 1. tölul. leiðir af sér.

 

4. Skýrslugjöf um gjaldeyrisjöfnuð, lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands verði miðuð við framangreindar forsendur.

Að gefnu tilefni skal kúabændum bent á þá staðreynd að þetta eru tilmæli af hálfu SÍ og FME. Í því sambandi má benda á að Bændasamtök Íslands og Landssamband smábátaeigenda sendu frá sér yfirlýsingu í gær vegna ólögmætis gengistryggðu lánanna þar sem fram kom áskorun á öll fjármálafyrirtæki að hlíta afdráttarlausri niðurstöðu Hæstaréttar og grípa til aðgerða þegar í stað, sem felast í því að:

– Færa höfuðstól gengistryggðra lána til þeirrar upphæðar sem tekin var að láni og endurgreiða lántökum að teknu tilliti til samningsvaxta.

– Stöðva allar innheimtuaðgerðir.

 

Kúabændum má vera ljóst að mikill munur er á tilmælum SÍ og FME og framangreindum kröfum.