Samlögin vilja kaupa enn meiri mjólk
26.05.2005
Á síðustu mánuðum og misserum hefur gengið mjög vel með sölu mjólkurvara og liggur nú fyrir að vegna þessa verður greiðslumark næsta árs aukið verulega. Vegna góðrar sölu og spám um að áframhald verði á þeirri þróun hafa Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði jafnframt lagt til við mjólkursamlögin að þau kaupi prótein úr tveim milljónum lítra af mjólk, til viðbótar þeim 4,5 milljónum sem áður hafði verið ákveðið að kaupa umfram greiðslumark.
Heildarinnvigtun mjólkur síðustu 12 mánuði er 112,2 milljónir lítra en heildargreiðslumark verðlagsársins eru 106 milljónir lítra. Því er nú áformað að greiða fyrir meira magn en sem nemur heildarinnvigtun síðustu 12 mánaða.
Greiðslumark næsta árs hefur ekki verið ákveðið en ljóst er þó að það mun aukast verulega frá greiðslumarki þessa verðlagsárs, eins og áður hefur verið greint frá. Ákvörðun um greiðslumarkið verður tekin mjög fljótlega.