Beint í efni

Samkomulag um nýja búvörusamninga

19.02.2016

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hafa skrifað undir nýja búvörusamninga. Um er að ræða rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samninga um starfskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017 til 2026.

Samningarnir eru til 10 ára en gert er ráð fyrir að þeir verði teknir til endurskoðunar tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Það er nýmæli að gildistíminn sé þetta langur, en ástæða þess er að með samningunum er verið að ráðast í umfangsmiklar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins sem kallar á langtímahugsun.

Meginmarkmið rammasamningsins er að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni
sem fjölbreyttust sóknarfæri. Markmiðið er að auka verðmætasköpun í landbúnaði og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Til þess að ná þessum markmiðum eru í samningum fjölbreytt atriði sem ætlað er að ýta undir framþróun og nýsköpun í greininni.

Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna segir að viðræður á milli fulltrúa bænda og stjórnvalda vegna nýrra búvörusamninga hafa staðið yfir frá því í september á síðasta ári. "Nú höfum við náð saman um niðurstöðu sem samningsaðilar eru ánægðir með. Við höfum lagt áherslu á að ljúka samningunum til þess að bændur og allir sem starfa við íslenskan landbúnað geti gert áætlanir um sinn rekstur. Nýju samningarnir eru byltingarkenndir að ýmsu leyti en í samningaferlinu hefur verið tekið tillit til margra ólíkra sjónarmiða.

Langur samningur er mikilvægur að því leyti að hann tryggir starfsskilyrði inn í framtíðina. Endurskoðunarákvæði eru fyrir hendi ef eitthvað bregður út af eða nýjar aðstæður verða uppi. Þá er nýlunda að gera víðtækan rammasamning fyrir allan landbúnað. Meginhugmyndin þar er að stuðningurinn verði fjölbreyttari og almennari, en ekki eins bundinn ákveðnum greinum og verið hefur.

Í samningaviðræðunum var markmiðið að sníða gallana af gömlu samningunum. Mikil umræða hefur átt sér stað um kvótakerfi í mjólk, m.a. þann kostnað sem bændur hafa þurft að leggja í kvótakaup. Sú stefna var tekin að fresta um sinn ákvörðun um afnám kvótakerfisins en almenn atkvæðagreiðsla um málið verður haldin meðal búabænda árið 2019 samhliða fyrstu endurskoðun samningsins. Ýmsar viðamiklar breytingar verða þó gerðar strax, meðal annars að frjálst framsal á greiðslumarki verður óheimilt. Þeir sem vilja selja sitt greiðslumark geta nýtt sér það að ríkið innleysi kvótann á fyrirfram ákveðnu verði. Ríkið mun svo bjóða kvótann til sölu á sama verði og munu nýliðar og þeir framleiðendur sem framleitt hafa umfram kvóta njóta forgangs.

Í sauðfjársamningi var einnig hægt á afnámi beingreiðslna fyrstu árin auk þess sem tekinn verður upp sérstakur býlisstuðningur.

Í garðyrkjusamningi eru litlar breytingar. Áfram er gert ráð fyrir beingreiðslum til tómata-, gúrku- og paprikuframleiðslu og niðurgreiðslu á raforku til ræktunar með lýsingu,“ segir Sindri. 

Í nýju samningunum er lögð aukin áhersla á lífræna framleiðslu, velferð dýra, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu. Veigamiklar breytingar fela það í sér að nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verða auðveldari en verið hefur. Sérstakt verkefni kemur inn í samninginn um stuðning við skógarbændur til að auka virði skógarafurða. Um leið er kveðið á um annað nýtt verkefni um mat gróðurauðlindum sem ætlað er til þess frekari rannsókna á landi sem nýtt er til beitar. Jafnframt verða möguleikar á fjárfestingastyrkjum í svínarækt fyrri hluta samningstímans til þess að hraða umbótum sem bæta aðbúnað dýra. Jarðræktarstuðningur er aukinn verulega og gerður almennari. Hægt verður að styðja betur við ræktun, þar með talið ræktun matjurta sem er nýmæli. Um leið verður tekinn upp almennur stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Stuðningur við lífræna framleiðslu verður tífaldaður frá því sem nú er og sérstakur stuðningur verður tekinn upp við geitfjárrækt, sem ekki hefur verið áður.

Ennfremur fylgir samningnum bókun þar sem gert er ráð fyrir frekari viðræðum um innviði hinna dreifðu byggða og almenn atriði er varða byggðastefnu stjórnvalda.

Fjárhæðir í rammasamningi nema kr. 1.743 milljónum árið 2017 en enda í kr. 1.516 milljónum árið 2026 við lok samnings. Gerð er hagræðingarkrafa í samningunum sem nemur 0,5% fyrstu 5 ára samningana en 1% næstu 5 ár á eftir. Þetta á við um alla þætti samninganna nema þeim sem lúta að niðurgreiðslu raforku og framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Heildarútgjöld ríkisins vegna samningana verða nánast þau sömu í lok samningstímans (á föstu verðlagi) og þau eru nú. Sett er þak á stuðning í alla samningana þannig að enginn framleiðandi getur fengið meira en ákveðið hlutfall af heildarframlögum.

Mjólkursamningur tekur breytingum
Í nautgriparæktarsamningi er stefnt að viðamiklum breytingum. Vægi greiðslna út á framleidda mjólk auk gripagreiðslna eykst en á móti er gert ráð fyrir að vægi greiðslna út á greiðslumark verði þrepað niður. Viðskipti með greiðslumark verða jafnframt takmörkuð en aðlögunartími er talsverður. Horft er til þess að hægt verði að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu en ákvörðun um það verður ekki tekin fyrr en við fyrri endurskoðun árið 2019. Atkvæðagreiðsla verði meðal mjólkurframleiðenda um málið áður en til þess kemur. Ný verkefni eru einkum að nú verður tekinn upp stuðningur við nautakjötsframleiðslu, en innlend framleiðsla hefur ekki annað eftirspurn síðustu ár. Ennfremur verður mögulegt að fá stuðning við fjárfestingar, sem líka er nýmæli. Þá mun ráðherra beita sér fyrir því að tollvernd á ákveðnum mjólkurvörum verði færð til raungildis, en hún hefur verið óbreytt í krónum talið frá árinu 1995.

Garðyrkjusamningur áþekkur fyrri samningum
Samningur garðyrkjubænda er um margt áþekkur fyrri samningum og engar snöggar eða áhrifamiklar breytingar eru fyrirsjáanlegar vegna hans. Kveðið er á um hlutdeild ríkisins í kostnaði við dreifingu og flutning raforku, en undanfarin ár hafa verið gerðir sérstakir samningar um þá þætti, utan búvörusamninga. Áfram munu papriku-, gúrku- og tómataframleiðendur fá beingreiðslur vegna framleiðslu sinnar. Sett hefur verið viðmið um hámarksstuðning til einstaka bænda vegna beingreiðslna og niðurgreiðslna á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku í því skyni að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best.

Rík áhersla er lögð á áframhaldandi stuðning við þróunarstarf í garðyrkju og verður fagaðstoð gerð enn aðgengilegri fyrir alla hluta garðyrkjunnar. Með því er ætlunin að stuðla að markvissri uppbyggingu þekkingar, m.a. með samstarfi við erlenda og innlenda ráðunauta.

Breyttar áherslur í sauðfjársamningi
Í sauðfjárræktarsamningi eru breyttar áherslur frá fyrri samningi. Markmið nýja samningsins er að efla íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni, verðmætasköpun og góðir búskaparhættir eru hafðir að leiðarljósi. Að auki á að hlúa að þeirri einstöku íslensku menningu sem tengist sauðfjárrækt um leið og stuðlað er að framþróun, nýsköpun, nýliðun og eflingu byggðar um allt land.

Vægi álagsgreiðslna gæðastýringar er aukið og greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður á móti. Teknar verða upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt þegar liðið er á samninginn, en á öðru ári hans hefjast greiðslur sem kallast býlisstuðningur og eru sérstaklega ætlaðar til að styðja við minni bú. Einnig verður kostur á fjárfestingastuðningi í sauðfjárrækt og stuðningur við svæði sem eru sérstaklega háð sauðfjárrækt verður aukinn. Nýtt verkefni er í samningnum um aukið virði afurða sem er ætlað til margskonar aðgerða til að auka verðmæti framleiðslunnar.

Að lokum
Á hverju ári á sér stað mikil verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. Árið 2014 var verðmæti landbúnaðarafurða 51 milljarður kr. en að viðbættri annarri starfsemi 54 milljarðar. Um 4.200 lögbýli eru í notkun hér á landi og tæplega 4.000 manns starfandi í landbúnaði samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Alls munu um 11.000 störf tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Íslenskur landbúnaður er mikilvægur þáttur í virðiskeðjunni og skilar hann og viðskipti með landbúnaðarvörur miklum skatttekjum til ríkisins.

Samningarnir:
Rammasamningur
Búvörusamningur um sauðfé
Búvörusamningur um nautgriparækt
Búvörusamningur um garðyrkju


Samningamenn bænda ásamt ráðherra. Frá vinstri: Gunnar Þorgeirsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sindri Sigurgeirsson, Sigurður Loftsson og Þórarinn Ingi Pétursson. 


Rebekka Hilmarsdóttir lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.