Beint í efni

Samkomulag Íslands og ESB um tollalækkanir á búvörum

22.01.2007

Samkomulag um almenna tollalækkun á kjöti og kjötafurðum um 40% hefur náðst við Evrópusambandið. Það tryggir að auki
gagnkvæma tollfrjálsa kvóta í viðskiptum með umtalsvert magn landbúnaðarvara. Samkomulagið tekur gildi 1. mars nk. á
sama tíma og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun matvælaverðs kemur til framkvæmda. Hinn 9. október s.l. kynnti ríkisstjórnin tillögur um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs en þær fólu m.a. í sér að almennir tollar á innfluttum kjötvörum yrðu „lækkaðir um allt að 40% frá 1. mars 2007.“ Samhliða því skyldi áfram unnið að „frekari gagnkvæmum tollalækkunum og bættum markaðsaðgangi
gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands.“ Í framhaldinu fóru viðræður af stað við ESB um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur á nýjan leik. Áður hafði náðst samkomulag milli aðila, sem skyldi ganga í gildi 1. janúar s.l. Í ljósi breyttra
aðstæðna var hins vegar ákveðið að fresta gildistöku
þess til 1. mars n.k. og freista þess að ná fram frekari lækkun á tollum og bættum markaðsaðgangi í viðskiptum. Bráðabirgðasamkomulag náðist fyrir jól og var það efnislega samþykkt af aðildarríkjum ESB 16. janúar sl.

Í samningnum veitir Ísland ESB almenna tollalækkun á kjöti og kjötafurðum um 40%. Enginn tollur verður í viðskiptum aðila með hesta, hreindýrakjöt í heilum og hálfum skrokkum, tómata, agúrkur og vatn. Það sama mun gilda með blóm og plöntur, þó ekki afskorin blóm eða pottaplöntur undir 1 metra á hæð. Þá mun Ísland fella niður tolla af frosnu grænmeti. Gagnkvæmir tollkvótar án allra aðflutningsgjalda verða veittir að umfangi sem ekki hefur áður þekkst í milliríkjasamningum Íslands. Ísland mun veita ESB kvóta fyrir kjöt, kjötvörur, kartöflur, rjúpur, ost og fær í staðinn kvóta fyrir skyr, smjör og pylsur, sbr. neðangreinda töflu. Efnislegri umfjöllun um samkomulagið af hálfu ESB er lokið og einungis tæknileg og formleg úrvinnsla eftir, s.s. þýðingar og fullgildingarferli. Stefnt er að því að
skrifa undir samninginn í febrúar þannig að hann taki
gildi 1. mars n.k. „Samkomulagið við ESB brýtur blað og lækkar
matvöruverð á Íslandi,“ segir Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra. Um er að ræða langstærsta samningum landbúnaðarafurðir sem Ísland hefur gert, að samningum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) frátöldum. „Samningurinn kemur neytendum ákaflega vel og er stórt og mikilvægt skref í að innleiða þær lækkanir á matvælaverði sem ríkisstjórnin ákvað í október. Hann eykur frelsi í viðskiptum, stuðlar að auknu úrvali og ýtir undir vöruþróun. Hitt er ekki síður
mikilvægt að um leið skapast sóknarfæri á erlendum mörkuðum fyrir okkar heilnæmu og umhverfisvænu afurðir, t.d. skyr og smjör,“ segir Valgerður.

 

Ísland veitir ESB tollkvóta án aðflutningsgjalda Nýtt samkomulag Eldra samkomulag
Nautakjöt 100 100 tonn 0
Svínakjöt 200 tonn 0
Alifuglakjöt 200 tonn 0
Pylsur 50 tonn 15 tonn
Unnar kjötvörur 50 tonn 0
Skinka 50 tonn 0
Kartöflur 100 tonn 0
Rjúpa 20 tonn 15 tonn
Ostur 100 tonn 20 tonn
ESB veitir Íslandi tollkvóta án aðflutningsgjalda Nýtt samkomulag Eldra samkomulag
Lambakjöt* 1850 tonn 1850 tonn
Skyr 380 tonn 0
Smjör 350 tonn 20
Pylsur 100 tonn 15 tonn

* Í fyrra samkomulagi var búið að færa magn úr 1350 tonnum í 1850 tonn

Heimild: www.stiklur.is