Beint í efni

Samkeppni á jafnréttisgrundvelli

06.05.2018

Í kjölfar erindis Ara Edwald, forstjóra MS, á fundi Viðskiptaráðs um daginn þar sem hann ræddi samkeppnisumhverfi fyrirtækja, spratt upp nokkur umræða um heilbrigða samkeppni í viðskiptalífinu hér á þessari litlu eyju okkar. Margir tóku undir skilaboð Ara og ritstjóri Fréttablaðsins ritaði í kjölfarið leiðara þar sem hún bendir á að ekki væri einungis hægt að líta á aðra íslenska fjölmiðla sem samkeppnisaðila þeirra þar sem samkeppni frá Facebook og Google væri orðin umtalsverð og íslenskur auglýsingamarkaður væri markaður af því. Eins bendir hún á samkeppnisumhverfi á smásölumarkaði, hversu auðvelt það væri í raun fyrir Costco að ryðja íslenskum samkeppnisaðilum af markaði í krafti stærðarinnar og hagkvæmni sem af henni hlýst. Og það er stóri punkturinn. Þetta á líka við um íslenskan landbúnað.

1. maí tók gildi nýr viðskiptasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins með landbúnaðarvörur. Í samningnum felst að hægt verður að flytja inn margfalt meira magn af landbúnaðarvörum frá ESB án tolla en nú er. Magn nautakjöts sjöfaldast, sérostar fara úr 20 tonnum í 230 tonn og venjulegir ostar úr 80 tonnum í 380 tonn svo eitthvað sé nefnt. Nokkur munur er á framleiðslukostnaði landbúnaðarvara hér á landi og innan Evrópu og hefur því svo stóraukinn innflutningur eðlilega áhrif á íslenska bændur.

Margar ástæður geta verið fyrir því af hverju framleiðslukostnaður er mismikill milli landa en háan framleiðslukostnað hér á landi má meðal annars rekja til sívaxandi launakostnaðar -og þar af leiðandi kostnaðar á aðföngum bænda og ýmis konar þjónustu svo sem dýralækna og eftirlits- og aðbúnaðarkrafna sem kalla á dýrar framkvæmdir. Það er langsótt að einhver vilji slá af kröfum þegar kemur að þessum atriðum. Einnig spila óviðráðanleg atriði eins og loftslag inní myndina. Uppskerur eru til að mynda færri hér á landi en víða á meginlandi Evrópu.

Íslenskir bændur hræðast ekki samkeppni en hún verður þá að vera á jafnréttisgrundvelli. Það er ansi magnað að við gerum ekki sömu kröfur til innfluttra landbúnaðarvara og við gerum til íslenskra. Við erum til að mynda með mun strangara kerfi þegar kemur að salmonellu og kampýlabakter í kjúklingum. Við erum með lög um lágmarkstíma útigöngu kúa en það þekkist ekki víða. Og síðast en ekki síst notum við -ásamt Norðmönnum- mun minna af sýklalyfjum en nokkurt annað land. Ítalir nota til að mynda 88 sinnum meira af sýklalyfjum í landbúnaði en Íslendingar.

Reglur um upprunamerkingar eru vissulega í gildi og eru afar mikilvægar fyrir neytendur þegar viðskipti með landbúnaðarvörur milli landa er alltaf að aukast.  En þar er þó stór hængur á. Upprunamerkingar varðandi eldisland eiga ekki við þegar kemur að t.d. hakkefni. Það þýðir að þegar neytendur versla hamborgara sem er upprunamerktur frá t.d. Danmörku þá hefur neytandinn enga tryggingu fyrir því að kjötið sé ekki upprunið frá t.d. Rúmeníu. Það þarf ekki að dvelja lengi við það dæmi til að sjá að með slíkum aðferðum er afskaplega auðvelt að bjóða upp á ódýra vöru þar sem hún er framleidd undir allt öðrum skilyrðum en gilda á Íslandi.

Einhverjir hugsa með sér að „bændur verði þá bara að hagræða eins og aðrir til að vera samkeppnishæfir“. Það er alveg rétt og munu bændur gera það áfram sem áður. En við viljum að sjálfsögðu ekki að hagræðingarkrafan verði svo óhófleg að hún fari að bitna alvarlega á byggðafestu og ekki verði efnahagslegar forsendur fyrir að stunda landbúnað í þeirri mynd sem við sem þjóð helst kjósum. Ákveðin hagræðing hefur falist í því að búum hefur fækkað og þau stækka, en enn erum við ekki þekkt fyrir svokallaðan verksmiðjubúskap eins og þekkist víða um heim þar sem mörg búin telja þúsundir kúa. Því fylgir ákveðinn fórnarkostnaður því þá keppum við ekki beint í lágu verði tilkomnu af stærðarhagkvæmni. Ávinningurinn er hins vegar mun meiri; betri gæðastýring, blómlegri byggð og kannski mannlegri umgengni og meiri tengsl við dýrin ef svo má að orði komast. Þetta grunar mig að flestum Íslendingum líki vel og vilji ekki breyta.

Það er því afar mikilvægt að á sama tíma og opnað er fyrir aukinn tollkvóta á landbúnaðarvörum að stjórnvöld vinni að bótum á tollaumhverfinu. Í júní 2016 skilaði starfshópur sem hafði það hlutverk að kanna áhrif tollasamnings við ESB sinni skýrslu.

Starfshópurinn lagði fram eftirfarandi tillögur að mikilvægum aðgerðum til að koma til móts við áhrif tollasamningsins.
1. Að skorti á tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem skortur er á.
2. Að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
3. Að tollkvótum verði úthlutað oftar á árinu, allt að fjórum sinnum í stað einu sinni, til þess að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað.
4. Stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings, m.t.t. gæðakrafna, einkum og sér í lagi að því er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.
5. Stjórnvöld skipi starfshóp sem verði falin greining á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart mögulegum breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Sérstöku fjármagni verði veitt í slíka greiningarvinnu.
6. Að heimilað verði að nýta fjármuni til úreldingar sem ætlaðir eru til fjárfestingar hjá svínabændum.
7. Að leitað verði leiða til að andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt verði ráðstafað til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða.
8. Að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur með lægri vaxtakjör en á öðrum lánum sem þessar greinar hefðu aðgang að til að mæta nýjum aðbúnaðarreglugerðum.

Einungis tvær tillagnanna eru komnar til framkvæmda. Það er eðlileg krafa að hinar 6 tillögurnar komist til framkvæmda svo fljótt sem unnt er svo íslenskir bændur standi betur að vígi í síaukinni samkeppni.

Að stunda landbúnað á 66. breiddargráðu er hvorki sjálfsagt né auðvelt. Tilurð íslensks landbúnaðar er því að miklum hluta pólitísk ákvörðun. Þar er ábyrgð stjórnmálamanna mikil.

Margrét Gísladóttir
Framkvæmdastjóri LK