Beint í efni

Sameinuð hagsmunagæsla bænda

01.05.2021

Í nýliðnum aprílmánuði átti Landssamband kúabænda 35 ára starfsafmæli og einnig var aðalfundur félagsins haldinn 9. apríl. Oft þykir manni tíminn líða hratt og stutt vera á milli aðalfunda en í þetta skiptið var starfsárið þó óvenju stutt, eða ekki nema rétt 5 mánuðir. Það var auðvitað von okkar að við gætum hist í raunheimum til að styrkja félagsskapinn og fagna afmæli LK en ekki síður vegna þess að að öllum líkindum myndi þessi fundur marka stór tímamót í sögu sambandsins.

Sameining við Bændasamtök Íslands

Stærsta einstaka tillagan sem lá fyrir fundinum, og var síðan samþykkt af aðalfundarfulltrúum, snéri að því hvort að LK myndi færa starfsemi sína undir BÍ um mitt þetta ár.

Þetta er stór ákvörðun og eðlilegt að fólk gefi sér tíma í að meta kosti hennar og galla. Sjálf hafði ég nokkuð blendnar tilfinningar til þess að það yrði með fyrstu verkum mínum í formannssæti LK að færa starfsemi samtakanna undir BÍ.

Flest hefðum við líklega viljað halda í gamla fyrirkomulagið með öflug samtök búgreina sem gátu reytt sig á öflug Bændasamtök en með afnámi búnaðargjalds árið 2017 varð það gríðarleg áskorun bæði fyrir búgreinafélögin og BÍ að reka sig fjárhagslega. LK hefur um áraraðir haft aðgang að sérfræðingum sem störfuðu hjá BÍ og við höfum því svo sannarlega fundið fyrir því að umsvif samtaka bænda fóru stöðugt minnkandi með dvínandi fjárhag.

Áskorunum geta oft fylgt tækifæri, þær geta ýtt okkur út í að endurmeta hlutina, hagræða og finna nýjar -og mögulega betri- leiðir. Staðreyndin er sú að við höfum ekki efni á að hafa ekki öflug Bændasamtök og til þess að efla hagsmunabaráttu landbúnaðarins í heild þurfa bændur nú að taka höndum saman og byggja upp sameiginleg og öflugari Bændasamtök, sem byggjast upp á deildum búgreinanna.

Fleiri búgreinafélög hafa nú á undanförnum vikum tekið ákvörðun um sameiningu við BÍ á aðalfundum um og það hefur verið ánægjulegt að sjá og finna hvað samstaða meðal búgreina um þessa vegferð hefur verið mikil. Á undanförnum mánuðum höfum við sannanlega fundið að með nánara samstarfi búgreinanna getum við lyft grettistaki. Þar má nefna bæði viðbragðsteymi BÍ vegna Covid þar sem fjöldi búgreina átti fulltrúa sem og vinna í kringum tollamál á seinnihluta síðasta árs. Mjög svo aukin samskipti meðal einstakra búgreina og BÍ hafa sannanlega skilað sér í árangri og það er von mín að með formlegri sameiningu munum við ná að styrkja hagsmunagæslu bænda mun meir.

Það gefur hagsmunabaráttu landbúnaðarins stóraukið vægi ef bændur standa saman að baki hennar og að fyrir samtökin starfi öflugur mannauður með sérþekkingu á fjölbreyttum sviðum, sem er nútíma hagsmunabaráttu nauðsynleg.

Það er mín trú að ef vel til tekst getum við stóreflt og styrkt hagsmunabaráttu landbúnaðarins.

Ákveðin umræða hefur verið uppi um hvort umfang hagsmunagæslu fyrir kúabændur verði í samræmi við hlutfall af félagsgjöldum til BÍ og telja menn víst að það hlutfall verði um 40-50% af heildinni.  Það er erfitt að sjá í dag hvernig félagsgjöldin skiptast milli búgreina þar sem félagsmenn í BÍ hafa ekki skráð það hingað til en það mun breytast eftir sameiningu. Þá fljótlega sjáum við hvernig félagsgjöldin skiptast milli ákveðinna búgreina. Stór hluti hagsmunagæslu bænda er hins vegar almennur fyrir landbúnaðinn í heild sem að sjálfsögðu nær þá til nautgriparæktar líkt og annarra greina. Þar má helst nefna tollamál og loftslagsmál, sem eru og verða líklega stærstu málaflokkar hagsmunagæslunnar um þessar mundir og á næstu árum.

Þegar kemur að umfangi vinnu stjórnar búgreinadeildar kúabænda verður miðað við svokallað einingakerfi byggt m.a. á núverandi starfsemi, þar sem getur verið misjafnt hve umfangsmikil starfsemin er milli deilda. Grunnmarkmið og ástæða sameiningarinnar er auðvitað sú að ná fram aukinni skilvirkni og eflingu hagsmunagæslunnar fyrir íslenskan landbúnað, bæði einstakar búgreinar og í heild.

Verkefnin fram undan og stækkandi málaflokkur

Það er af nægum verkefnum að taka á komandi starfsári fyrir stjórn og starfsfólk LK sem brátt munu starfa undir nafni Búgreinadeildar kúabænda innan BÍ. Það er okkar að leiða og vinna sameiningarmál LK við Bændasamtökin og „hefðbundin“ hagsmunagæslumál munu ávallt taka sitt pláss. Heilt yfir má segja að starf okkar snúi að mestu að því að búa kúabændum gott og sanngjarnt starfsumhverfi, miðla upplýsingum, vinna að því að framþróun verði í greininni hverju sinni, styrkja ímynd starfsstéttarinnar og þeirra góðu matvæla sem við framleiðum.

Frá því að ég byrjaði að taka þátt í félagsstarfi kúabænda hafa umhverfis- og ímyndamál verið mér hugleikin. Umræðan um þessi mál meðal kúabænda hefur að mínu mati þróast hratt síðustu ár og ég er stolt af kúabændum hversu umhugað þeim er um orðspor greinarinnar og umhverfi sitt. Það er mín skoðun að eitt stærsta hagsmunamál okkar kúabænda og framtíð greinarinnar byggist á því hvernig við tökumst á við umhverfismál og nálgumst umræðuna sem þeim málaflokk fylgja. Ég hef verið spurð að því hvort að nautakjöts- og mjólkurframleiðsla séu ekki deyjandi grein vegna kolefnisspors og hlýnunar jarðar? Við séum að framleiða vörur sem engin eftirspurn verði eftir að nokkrum árum liðnum og hvort að við séum ekki í sömu sporum og eldsneytissalar?

Kúabændur munu ekki leggja árar í bát hér frekar en fyrri daginn og takast á við þessar áskoranir. Það er mín trú að áfram verði eftirspurn eftir heilnæmum og góðum matvælum. Við verðum að halda áfram að hlúa að því sem við gerum vel og stefna á að gera enn betur í matvælaframleiðslu okkar en á sama tíma er það okkur nauðsynlegt að huga að kolefnisspori framleiðslunnar og umhverfismálum. Hér er ekki í boði að stinga höfðinu í sandinn. Loftslagsmál og kolefnisspor taka ört stækkandi pláss í rekstri fyrirtækja og hagsmunagæslu starfsgreina en þar erum við ekki undanskilin. Ég sé fram á að aukinn þungi verði lagður í málaflokkinn á þessu starfsári þó að ekkert megi gefa eftir á öðrum sviðum.

Ég vil þakka kúabændum fyrir þann stuðning sem ég hef fengið til minna starfa og það góða veganesti sem okkur í stjórn LK var falið á nýliðnum aðalfundi.

Nú þegar erilsamasti tími okkar bænda er að ganga í garð er ekki seinna vænna að óska kúabændum og öðrum sem við greinina starfa gleðilegs sumars með ósk um velgengni í störfum sínum á næstu mánuðum.

Ritað á Egilsstöðum 30. apríl 2021

Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður Landssambands kúabænda