Beint í efni

Sameining MS og MBF

02.05.2005

Smiðshöggið á sameiningu Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna var rekið á föstudaginn á Selfossi þar sem fyrsti fulltrúaráðsfundur sameinaðs félags var haldinn. Stjórnarformaður hins nýja félags er Magnús H. Sigurðsson og á fyrsta stjórnarfundi þess var Guðbrandur Sigurðsson ráðinn forstjóri. Einnig var ákveðið að hrinda í framkvæmd breytingaskipulagi sem gerir ráð fyrir fjórum framleiðslusviðum og sex stoðsviðum. Nafn hins sameinaða félags er

MS/MBF en ný stjórn félagsins hyggst breyta nafni þess fljótlega að undangenginni samkeppni meðal starfsmanna og mjólkurframleiðenda þess. Þess er vænst að nýtt nafn muni liggja fyrir í lok maí næstkomandi.

 

MS/MBF er samvinnufélag um 550 mjólkurframleiðenda og nær félagssvæðið yfir Austurland, Suðurland, Vesturland, Breiðafjörð og Norðurland vestra. Félagið er með fimm starfsstöðvar á þessu svæði sem eru í Búðardal, Blönduósi, Egilsstöðum, Selfossi og Reykjavík. Heildarfjöldi starfsmanna er 374 og er gert ráð fyrir að velta sameinaðs félags verði um 7 milljarðar króna á yfirstandandi ári.

Stjórn hins sameinaða félags er skipuð sjö aðalmönnum og fjórum varamönnum:

Magnús H. Sigurðsson, Birtingaholti, formaður
Bjarni Jónsson, Selalæk, varaformaður
Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum, ritari
Egill Sigurðsson, Berustöðum, meðstjórnandi
Haraldur Þórarinsson, Laugardælum, meðstjórnandi
Helgi Bergþórsson, Eystra-Súlunesi, meðstjórnandi
Hörður Grímsson, Tindum,  meðstjórnandi

Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti, varamaður
Elvar Eyvindsson, Skíðbakka, varamaður
Magnús R. Sigurðsson, Hnjúki, varamaður
Pétur Diðriksson, Helgavatni, varamaður

 

Öflugt félag á sviði mjólkuriðnaðar

Á þessum tímamótum sagði Magnús H. Sigurðsson stjórnarformaður MS/MBF m.a.:  “Sameining MS/MBF er eðlilegt framhald þeirrar góðu samvinnu sem þessi félög hafa átt á undanförnum áratugum. Íslenskur mjólkuriðnaður er einn helsti hornsteinn íslensks landbúnaðar um þessar mundir og því mikilvægt að mjólkurbændur standi saman um að framleiða bestu mjólk í heimi fyrir íslenska neytendur. Sameining þessara fyrirtækja er mikilvægt spor í þá átt að þjóna betur neytendum og tryggja að sú mikla hagræðing sem átt hefur sér stað innan mjólkuriðnaðarins haldi áfram.”

 

Í tilefni af ráðningu sinni sem forstjóra MS/MBF sagði Guðbrandur Sigurðsson  m. a.: “Ég er ákaflega spenntur að takast á við þetta stóra og ábyrgðarmikla verkefni. Ég hef verið svo heppinn að fá tækifæri undanfarið að vinna að því að skipuleggja sameiningu þessara tveggja félaga. Þar hef ég kynnst góðu starfsfólki hjá báðum félögum sem ég er spenntur að fá að vinna með í að byggja upp öflugt félag til framtíðar.”

 

MS og MBF hafa átt nána samvinnu undanfarna áratugi við framleiðslu og markaðsfærslu mjólkurafurða. Sameining félaganna er eðlilegt framhald þeirrar samvinnu og er markmið hennar að mynda öflugt fyrirtæki á sviði mjólkuriðnaðar til hagsbóta fyrir bæði neytendur og bændur.

MS/MBF er eitt af helstu félögum landsins á sviði matvælaframleiðslu og hefur þá sérstöðu að meirihluti afurða þessu eru ferskar og hollar þægindavörur sem eru tilbúnar til neyslu. Það er mat aðstandenda félagsins að rekstrarskilyrði í íslenskum mjólkuriðnaði eigi eftir að breytast verulega á komandi árum. Sameinað félag fær hæft starfsfólk, mikla þekkingu og sterkan fjárhag í heimanmund frá félögunum tveimur sem renna saman við sameininguna. Félagið hefur því alla burði til að takast á við þær breytingar sem framundan eru í starfsemi þess.

 

Breytingaskipulag

Skipulag MS/MBF byggir á svokölluðu matrixuskipulagi sem þykir hentugt til að takast á við þau verkefni sem eru framundan vegna sameiningar félaganna. Á sama tíma er áhersla lögð á að daglegur rekstur fari sem minnst úr skorðum. Skipulagið gengur út á að framleiðslueiningar félagsins mynda fjögur sjálfstæð afkomusvið en þvert á þau ganga svo fimm stoðsvið sem veita miðlæga þjónustu og samhæfa starfsemi félagsins auk gæða- og umhverfismála.

Lykilstarfsmenn sameinaðs félags eru:

 

Forstjóri
Guðbrandur Sigurðsson er matvælafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í viðskiptum (MBA) frá Edinborgarháskóla. Hann hefur frá því hann lauk námi starfað innan sjávarútvegs. Meðal annars stýrði hann viðskipta- og vöruþróun hjá Íslenskum sjávarafurðum hf árin 1990 til 1996. Árið 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa hf og gegndi því starfi til vors 2004 þegar félagið var selt nýjum eigendum. Þá var hann einnig framkvæmdastjóri Brims, sjávarútvegssviðs Eimskipafélags Íslands frá 2003 til 2004. Síðastliðið ár hefur Guðbrandur sinnt ráðgjafa- og fjárfestingarverkefnum.

 

Framkvæmdastjóri – Fjármál og rekstur
Guðlaugur Björgvinsson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað hjá MS frá árinu 1973 og verið forstjóri þess frá árinu 1979. Fjármál og rekstur er eitt af stoðsviðum félagsins og veitir afkomusviðum og öðrum stoðsviðum þjónustu á sviði fjármála, bókhalds og upplýsingatækni. Starfsmenn sviðsins eru staðsettir á Selfossi, í Búðardal og í Reykjavík.

 

Framkvæmdastjóri – Aðföng, framleiðsla og flutningar
Birgir Guðmundsson er mjólkurtæknifræðingur frá Dalum Tekniske Skole í Óðinsvéum. Hann hefur starfað hjá MBF frá árinu 1966 og verið framkvæmdastjóri þess frá árinu 1987. Aðföng, flutningar og framleiðsla eru eitt af stoð-sviðum félagsins og er hlutverk þess að vera stefnumótandi og hafa frumkvæði að hagræðingu og samræmingu í framleiðslu og umsjón með faglegri stjórnun afurðastöðvanna sem og umsjón með heildarskipulagi á flutningastarfsemi félagsins í samstarfi við m.a. sölu- og dreifingarsvið. Eitt fyrsta verkefni Birgis á þessu sviði verður heildarskipulagning aðflutninga mjólkur hjá fyrirtækinu sem í dag eru á hendi nokkurra aðila.

 

Framkvæmdastjóri – Sala og dreifing
Leifur Örn Leifsson er rekstrarfræðingur frá Tækniháskólanum og með meistaragráðu í Alþjóðaviðskiptum frá Johnson & Wales háskólanum í Rhode Island í Bandaríkjunum. Leifur hefur verið forstöðumaður sölu og dreifingar hjá Mjólkursamsölunni frá því árið 1998. Sala og dreifing sinnir sölu og vöruafhendingu til viðskiptavina á starfssvæði félagsins og er einnig ábyrgt fyrir samskiptum við umboðsmenn félagsins á öðrum svæðum.

 

Framkvæmdastjóri – Markaðs og þróunarsvið
Einar Matthíasson er með doktorspróf í matvælaverkfræði frá Háskólanum í Lundi. Hann hóf störf hjá MS árið 1992 og hefur lengst af verið forstöðumaður Markaðs- og þróunasviðs. Hlutverk Markaðs- og þróunarsviðs er að stýra vöruframboði og verðlagningu í takt við þarfir markaðarins og í samræmi við hagsmuni félagsins. Í starfi sviðsins er lögð áhersla á markvisst markaðs- og nýsköpunarstarf sem tryggir reglubundnar nýjungar og fjölbreytt úrval mjólkurafurða sem uppfylli kröfur neytenda um hollustu og þægindi.

 

Framkvæmdastjóri – Starfsmannamál
Aðalbjörg Lúthersdóttir er með B.Sc. próf í starfsmannastjórnun frá háskólanum í Stokkhólmi. Aðalbjörg hefur unnið samtals í 20 ár fyrir MS og hefur verið starfsmannastjóri þess undanfarin átta ár. Starfsmannamál eru eitt af stoðsviðum félagsins og veitir öðrum sviðum þess þjónustu og ráðgjöf varðandi öll málefni starfsmanna.

 

Gæða- og umhverfisstjóri
Auðunn Hermannsson er mjólkurverkfræðingur frá landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hóf störf hjá MBF 1992 og hefur lengst af stýrt gæða- og vöruþróunarmálum hjá félaginu. Gæða- og unhverfisstjóri hefur yfirumsjón með gæða- og umhverfismálum félagsins. Hann sér um að skipuleggja og samræma verkefni á sínu sviði í samvinnu við mjólkurbústjórana og aðra lykilstarfsmenn á mjólkurbúunum og er ábyrgur fyrir því að verkaskipting sé skýr á milli hans og mjólkurbúanna í þessum málaflokki.

 

Mjólkurbústjóri – Mjólkurbú Flóamanna Selfossi
Guðmundur Geir Gunnarsson er mjólkurtæknifræðingur fá Dalum Tekniske Skole í Óðinsvéum. Hann hefur m.a. starfað hjá Osta- og smjörsölunni en hefur verið framleiðslustjóri MBF frá árinu 1990. Guðmundur Geir er ábyrgur fyrir daglegum rekstri Mjólkurbúsins á Selfossi sem er stærsta mjólkurbú landsins með 137 starfsmenn. Þá fellur einnig starfsemi mjólkurbúsins á Egilsstöðum undir þennan rekstur en þar eru 16 starfsmenn, vinnslustjóri þar er Guttormur Metúsalemsson. Á Selfossi er rekin umfangsmikil framleiðslustarfsemi á sviði osta- og smjörafurða, skyrframleiðslu, G-vara og duftframleiðslu og framleiðslu á ýmsum sýrðum mjólkurafurðum. Á Egilsstöðum er pökkun á ferskvöru auk þess sem þar er framleiddur Mozzarellaostur.

 

Mjólkurbústjóri – Mjólkursamlögin í Búðardal og á Blönduósi
Sigurður Rúnar Friðjónsson er mjólkurtæknifræðingur frá Dale Tekniske Skole í Óðinsvéum. Hann hefur starfað samfleytt fyrir MS síðan 1971 og hefur verið Mjólkurbústjóri Mjólkursamlagsins í Búðardal frá 1977. Sigurður er ábyrgur fyrir rekstri samlaganna í Búðardal og á Blönduósi. Samlagið í Búðardal framleiðir osta og sýrðar mjólkurafurðir auk þess sem það hefur náð miklum árangri í ýmsum sérvörum á borð við LGG, LH og Benecol. Heildarfjöldi starfsmanna er um 50 í Búðardal. Starfsemin á Blönduósi byggir á framleiðslu valsaþurrkaðs mjólkurdufts auk framleiðslu á smjöri. Heildarfjöldi starfsmanna á Blönduósi er 10 og er Páll Svavarsson þar i forsvari.

 

Mjólkurbústjóri – Mjólkurstöð í Reykjavík
Pétur Sigurðsson er mjólkurverkfræðingur frá landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi. Pétur hefur unnið hjá MS frá árinu 1979 og var síðast forstöðumaður framleiðslusviðs MS. Mjólkurstöðin í Reykjavík er sérhæfð til pökkunar á fljótandi mjólkurafurðum á borð við nýmjólk, léttmjólk, undanrennu, fjörmjólk og súrmjólk. Heildarfjöldi starfsmanna í Mjólkurstöðinni eru 36.

 

Dótturfélög
Dótturfélög MS/MBF eru Emmess ís, Samsöluvörur, Bitruháls og Remfló. Engar breytingar eru fyrirhugaðar að svo stöddu á starfsemi þessara félaga.