
Sameinast Murray Goulburn og Fonterra?
05.10.2017
Undanfarna mánuði hafa flest stóru afurðafélögin í heiminum haft heldur hægt um sig þegar horft er til uppkaupa eða samruna, en nú gæti afar stór samruni verið á leiðinni en það eru félögin Fonterra á Nýja-Sjálandi og Murray Goulburn í Ástralíu. Bæði þessi félög eru stærstu félög sinna landa en Murray Goulburn hefur átt í erfiðleikum undanfarið m.a. vegna minni innvigtunar mjólkur eins og við höfum áður greint frá (sjá hér). Í síðustu viku kom svo fram að Fonterra hefði lagt fram tilboð um yfirtöku og nú er boltinn hjá stjórn Murray Goulburn.
Tilboð Fonterra er ekki bindandi að svo komnu máli og ekki hefur spurst út hvað felist í tilboði Fonterra en þessi tvö afurðafélög eru afar lík, bæði samvinnufélag framleiðenda og hafa unnið á sömu mörkuðum undanfarin ár. Þar hefur Fonterra þó haft nokkuð betur, sem kann m.a. að skýra stöðu Murray Goulburn í dag. Því kann að vera að það sé kærkomið að þeir rúmlega tvöþúsund kúabændur, sem eiga Murray Goulburn, geti fengið að komast í skjól Fonterra en það félag er afar stöndugt/SS.