Beint í efni

Sameinaðir stöndum vér – aðeins um endurskoðun félagskerfisins

07.09.2019

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um afleiðingar þess, á félagskerfi bænda þegar búnaðargjaldið var lagt niður. Eins og flestir vita fóru flest félög og samtök bænda þá leið að innheimta félagsgjöld til að standa undir starfsemi sinni. Starfsemi sem snýst meðal annars um faglega og félagslega þætti ásamt kynningarmálum og heilt yfir hagsmunabaráttu. Þetta hefur gengið misjafnlega hjá félögum, víða hefur þurft að skera niður og jafnvel ganga á sjóði til að reksturinn gangi upp.

Hagsmunagæsla landbúnaðarins er ekki bara fólgin í blaðagreinum og viðtölum, þó allt hjálpi til. Hún snýst einnig um samtöl við ráðamenn og stofnanir sem hafa með ýmis mál okkur tengd að gera. Kerfið okkar snertir meðal annars neytendur og úrvinnsluaðila, okkar mál koma inn á samkeppnismál, markaði, reglugerðir og lög svo eitthvað sé nefnt. Það er okkar að vera leiðandi í því hvernig við viljum sjá starfsumhverfið okkar uppbyggt og hluti af því umhverfi er félagskerfi landbúnaðarins.

Einn stærsti gallinn við núverandi kerfi er hversu auðvelt er að vera farþegi, það er að fólk getur sleppt því að leggja nokkuð til, en nýtur samt ávinnings af því starfi sem unnið er. Það eiga allir að leggja sitt af mörkum, það er engin sanngirni í því að láta nágrannann borga fyrir sig.

Mér þykir það nokkuð ljóst að stokka þarf félagskerfið okkar upp. Við þurfum að gera það einfaldara, skilvirkara og hagkvæmara. Samhliða því þarf að tryggja fjármögnun svo við getum haldið úti öflugri hagsmunagæslu fyrir bændur. Það er mín trú að þörfin fyrir öflug samtök bænda verði síst minni í framtíðinni en nú, enda landbúnaðurinn vinsælt skotmark í ýmsum málefnum. Það þýðir samt ekki að hann eigi að vera auðvelt skotmark og við bændur getum komið í veg fyrir það með því að þétta raðir og styðja við hagsmunagæsluna.

Við bændur þurfum að standa betur saman óháð því hvort við framleiðum mjólk, lambakjöt, nautakjöt, folaldakjöt, grænmeti, svínakjöt eða kjúkling. Við erum öll í sama liði og það er margt sem við eigum sameiginlegt og snertir okkur á sama hátt. Ég tel að við getum nýtt fjármuni betur ef við vinnum betur saman, þó vissulega sé alltaf eitthvað sem er sérstakt við hverja grein og sinna þarf af kostgæfni.

Núna þegar líður að hausti og bændur taka saman höndum við hin ýmsu haustverk, vil ég hvetja þá til að hugsa um þessi mál og taka þátt í umræðu um skipulag félagskerfisins okkar til framtíðar.

Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu