Sameina norskir bændur afurðastöðvar í mjólk og kjöti ?
21.05.2003
Ef Norðmenn ganga í Evrópusambandið telja yfirmenn norska stórfyrirtækisins Prior að það sé eini möguleiki afurðafyrirtækja bænda, vegna lakari samkeppnisstöðu, að sameina Tine (stærsta mjólkursamlag í Noregi), Norsk Kjött (stærsta afurðafyrirtækið í rauðu kjöti í Noregi) og Prior (stærsta fyrirtækið í alífuglageiranum). Jafnframt telja
sömu aðilar að ef Norðmenn verða að gefa eftir auknar tollaheimildir eða lækka álögur á innflutt matvæli, verði norskir bændur að bregðast við með sama hætti, að sameina öll sín stærstu fyrirtæki, jafnvel þótt þeir gangi ekki inn í Evrópusambandið.
Samvinnan getur hafist strax
Þegar í dag gætu þessi stóru afurðafyrirtæki hafið samstarf og að sögn Gabriel Joa, stjórnarformanns Prior, er full ástæða til að auka samstarfið í stað þess að hver fyrir sig finni upp hjólið.
„Þetta snýst um að undirbúa jarðveginn fyrir nýja tíma ef allt fer á versta veg og við verðum aðilar að Evrópusambandinu eða þá að tollvernd verði fjarlægð með öðrum hætti“, sagði Svein Lyngnes framkvæmdastjóri Prior.
Nánara samstarf þessara aðila verður rætt á árlegum samráðsfundi fyrirtækjanna í þessari viku.