Sameiginlegt ræktunarstarf á nautgripum milli Íslands og Noregs
20.11.2007
Í sumar óskaði Geno, nautgriparæktarfélagið í Noregi eftir því að fá að eiga fund með kúabændum sem væru áhugasamir um að flytja inn erfðaefni. Var sá fundur haldinn 20. ágúst sl. Í kjölfar fundarins listaði Torstein Steine, helsti kynbótafræðingur Norðmanna upp samstarfshugmyndir sem kynntar hafa verið á haustfundum LK og fyrir vinnuhópi Fagráðs um ræktunarmál. Bréf Steine er birt hér í heild sinni.
„Þegar rætt er um spurninguna um innflutning á NRF gripum til Íslands, er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvaða samstarfsmöguleika í framtíðinni slíkt býður upp á.
Einfaldasti og óskynsamlegasti möguleikinn er að Íslandi sé séð fyrir sæði frá Noregi, án þess að neitt raunverulegt ræktunarstarf sé eigi sér stað á Íslandi. Það er upplegg sem hvorki kemur sér vel fyrir Ísland eða Noreg. Skynsamlegra er að nýta tækifærið til að hefja sameiginlegt ræktunarstarf. Á því myndi nautgriparæktarstarfið í báðum löndum hagnast.
Á Íslandi hefur verið sýnt fram á að mögulegt er að rækta erfðahóp í mjög langan tíma án þess að fá að utanaðkomandi erfðaefni. Það hefur einnig verið sýnt fram á þar að mögulegt er að fá fram erfðaframfarir á nokkrum eiginleikum. Verkefnið verður þó mun erfiðara þegar velja á fyrir mörgum eiginleikum samtímis, hvað þá þegar eiginleikarnir hafa lágt arfgengi. Þetta kann að leiða til þess að íslenska kúastofninum verði ýtt til hliðar af innfluttu kúakyni.
Í Noregi er hætta á því að kúafjöldi fari minnkandi á næstu árum. Í bili skapar það engin vandamál, og verður kannski ekki um mörg ókomin ár. En ef það er möguleiki að stofna til samstarfs, sem leiðir til þess að erfðahópurinn stækkar, mun það hafa afgerandi áhrif á gæði ræktunarstarfs framtíðarinnar. Þess vegna er það mikilvægara fyrir Geno að ræða samstarfsmöguleika, heldur en bara að flytja NRF til Íslands.
Slíkt samstarf þarf að skipuleggja vel áður en hugsanlegur innflutningur á NRF til Íslands hefst. Það er mikilvægt að allir þættir samstarfsins séu útfærðir sem best.
Fara þarf í gegnum mörg þrep, frá því slíkt samstarf hefst, þar til það er komið í fullan gang. Ef gengið er út frá því að það fari af stað eru þau eftirfarandi:
1. Skipulag innflutnings á NRF og verndun á stofni íslensku mjólkurkýrinnar.
2. Innflutningur á NRF og afkvæmaprófanir á hreinum NRF gripum og blendingsgripum af NRF og íslenskum kúm.
3. Skili afkvæmaprófanir jákvæðum niðurstöðum er NRF blandað inn í íslenska stofninn.
4. Þegar hlutfall NRF erfðavísa hefur náð ákveðnu hlutfalli hefst sameiginlegt ræktunarstarf.
5. Ísland og Noregur reka sameiginlegt ræktunarstarf.
Þetta sameiginlega ræktunarstarf er hægt að skipuleggja á marga vegu. Þar sem ákveðinn fjöldi af íslenskum kúm verður að vera til staðar hér á landi, og að þær verður að sæða, þá þarf að vera í gangi sæðisframleiðsla á Íslandi. Aðstöðu til þess má nýta til sæðistöku úr NRF nautum sem fædd eru hér á landi. Það sæði má síðan nota til afkvæmaprófana, bæði hér á landi og í Noregi. Þar að auki má nýta ákveðinn hluta ungnautanna sem er í prófun í Noregi einnig hér á landi, saman með íslensku NRF nautunum. Fyrsta kastið munu reynd úrvalsnaut bara koma frá Noregi.
Þegar fram líða stundir, munu reynd naut koma bæði frá Íslandi og Noregi. Meirihluti þeirra mun þó koma frá Noregi, þar sem fjöldin sem hægt er að prófa á Íslandi er takmarkaður. Einnig er hægt að hugsa sér að flytja naut frá Íslandi til Noregs í formi fósturvísa, sem síðan yrðu prófaðir samhliða norskfæddum nautum í vaxtarrannsóknum í Noregi. Það eru semsagt margir möguleikar í spilunum, sem hægt er að nýta sér og þá jafnvel fleiri í senn.
Sameiginlegt ræktunarstarf sem lagt er upp með þessum hætti hefur marga kosti:
1. Ákveðinn fjöldi NRF nauta mun eiga dætur bæði á Íslandi og í Noregi. Slíkar skyldleikatengingar gera það mögulegt að rannsaka, hvort æskilegt sé að hafa nákvæmlega sömu ræktunarmarkmið í báðum löndum, eða hvort einhverjir eiginleikar séu mismunandi í þessum tveimur löndum. Út frá sjónarhóli samstarfsins væri æskilegast að ræktunarmarkmiðin gætu verið þau sömu í báðum löndum. Það er þó mikilvægt að úr því fáist skorið.
2. Verði íslenska kýrin blönduð að verulegu leyti með NRF, mun íslenski stofninn sem slíkur væntanlega minnka verulega. Ef hins vegar er farið í samstarf um ræktunina þegar í stað, munu æskilegir erfðavísar úr íslenska stofninum framvegis verða í hinum sameiginlega stofni og hafa þýðingu áfram. Þetta verður alveg hliðstætt því þegar NRF var myndað í Noregi, þar sem gömlu kynin voru sett inn í NRF stofninn.
3. Það verður mögulegt fyrir íslenska bændur að reka árangursríkt ræktunarstarf á eiginleikum með lágt arfgengi, s.s. heilsufari, frjósemi og lífsþrótti kálfa.
4. NRF-erfðahópurinn verður útvíkkaður. Það mun leiða til öflugra ræktunarstarfs ef kúm fækkar í Noregi.
Tímaþáttur verkefnisins:
Það mun líða nokkur tími þangað til að allir hlutar þess eru komnir í fastar skorður, en með góðu skipulagi er það komið í gang um leið og afkvæmaprófanir hefjast. Frá því að afkvæmaprófunum lýkur og hægt er að taka ákvörðun um notkun á NRF á Íslandi, munu líða 10-15 ár þar til að hlutdeild NRF er orðin það mikil að sameiginlegt nautaval sé raunverulegur valkostur. En það eru mögulegt að hefja afkvæmaprófanir á nautum fyrr á Íslandi, og slíkt á einnig að gera. Það mun sýna hversu vel blendingsgripir muni reynast og hvort eitthvað óvænt komi uppá. Taki afkvæmaprófanir 7-8 ár, þýðir það að samstarf er ekki komið í fullan gang fyrr en að 20 árum liðnum. Þetta er þó mjög háð því hvernig að prófunum í sambandi við innflutning er staðið. Ef það er gert öðru vísi en að framan er greint, t.d. með prófunum á ákveðnum fjölda búa, getur samstarfið mögulega hafist eftir 10-15 ár. Það mun þá fyrsta kastið takmarkast af þessum búum sem prófanirnar fara fram á.
Þrátt fyrir að langur tími líði þar til að allt er komið í fullan gang, eru tvö atriði sem taka þarf ákvörðun um í einu lagi. Það fyrra er nautavalið, sem muni gera framtíðarstofn NRF á Íslandi eins áhugaverðan í ræktunarlegu samhengi eins og mögulegt er. Það þýðir að nota verður mörg naut frá byrjun. Það besta er trúlega að nota ákveðinn fjölda reyndra úrvalsnauta en einnig nokkurn fjölda ungnauta þannig að erfðagrunnur hins nýja stofns verði sem breiðastur. Hitt atriðið varðar skýrsluhaldið og hvaða eiginleika á að skrá. Það væri mjög til bóta ef t.d. heilsufarseiginleikar væri skráðir á sama hátt í báðum löndum.
Það því því hægt að gera ráð fyrir að þetta samstarf verði komið á að takmörkuðu leyti fyrir árið 2020 ef ákvarðanir um innflutning verða teknar á næstu tveimur árum. Þetta minnisblað sýnir nokkur mikilvæg atriði í því samhengi. Þó hefur ekki verið hreyft við atriðum eins og félagsaðild og fjárhag. Þau þarf að ræða þegar komið hefur í ljós hvort áhugi er meðal bænda fyrir samstarfi af þessu tagi. Einnig eru áreiðanlega mörg fleiri atriði sem ræða þarf nánar“.
Torstein Steine
Geno