Beint í efni

Samdráttur í rússneskri mjólkurframleiðslu

19.06.2014

Þrátt fyrir bullandi eftirspurn eftir mjólkurvörum í Rússlandi dregur úr þarlendri mjólkurframleiðslu nú um stundir. Þannig er því spáð af bandarísku matvælastofnuninni (USDA) að kúm í Rússlandi fækki um 2,5% á þessu ári, miðað við fyrra ár. Þá er því spáð að mjólkurframleiðslan í ár verði um 30,5 milljarðar kílóa eða rétt tæplega 30 milljarðar lítra sem er nærri 4% minni framleiðsla en hún var árið 2012.

 

Þrátt fyrir minni mjólkurframleiðslu er því spáð að það muni ekki koma niður á osta- og smjörframleiðslu landsins þar sem afurðastöðvarnar reyni að færa framleiðsluna í arðbærari vörur. Á móti láta þeir drykkjarmjólkurmarkaðinn mæta afgangi enda er arðsemi þar afar lítil og því er nú stærri hluti drykkjarmjólkur landsins fluttur inn frá öðrum löndum. Vegna þessa hefur innflutningur mjólkur aukist um einmitt 4% á árinu frá fyrra ári.

 

Rússland er þó enn gríðarlega mikilvægt sem innflutningsland mjólkurvara en nefna má sem dæmi að þriðjungur alls útflutts smjörs og osta frá löndum Evrópusambandsins endar í Rússlandi! Þetta hlutfall gæti þó lækkað í ár enda hefur ástandið í Úkraínu og aðgerðir gegn Rússlandi á ýmsum sviðum vegna Úkraínu snarhækkað verð á innfluttum mjólkurvörum í Rússlandi og neyslan því dregist saman/SS.