
Samdráttur í nautgripabúskap Belgíu
08.03.2018
Samkvæmt nýlegri könnun markaðsfyrirtækisins AgriDirect, sem gerð var á högum belgískra nautgripabænda, þá er ekki mikill hugur í þarlendum nautgripabændum nú um stundir. Þannig svöruðu einungis 11,9% bændanna að þeir ætluðu að stækka og efla bú sín á komandi tímum og margir sögðust ætla að hætta búskap. Könnunin náði til 2.600 búa og í henni var m.a. spurt um framtíðaráform bændanna og sýna niðurstöðurnar verulega breytta sýn bænda á framtíð sýna miðað við svör við sambærilegri könnun árið 2010 en það ár stefndu t.d. 34,2% svarenda að því að stækka og efla rekstur sinn á komandi tímum.
Nú liggur svo fyrir uppgjör síðasta árs í Belgíu og sýna tölurnar þaðan að búum sem halda nautgripi fækkar hratt og hættu nærri tvöfalt fleiri í fyrra en árið 2016, en það ár voru einnig tvöfalt fleiri sem hættu en árið 2015. Þróunin virðist því miður því vera afar slæm í Belgíu og trú þorra belgískra nautgripabænda á framtíðinni er ekki mikil/SS.