Beint í efni

Samdráttur í nautakjötsútflutningi Úrúgvæ

29.10.2011

Lágt gengi á dollarnum hefur nú gert það að verkum að stórlega hefur dregið úr útflutningi nautakjöts frá Úrúgvæ eða um 30 þúsund tonn! Þetta gerist þrátt fyrir að Kína hafi stóraukið kaup á nautakjöti frá þessu þekkta nautakjötsframleiðslulandi. Nemur samdrátturinn í ár heilum 20% frá árinu 2010, en í lok ágúst var heildarútflutningurinn kominn í 142 þúsund tonn en var á sama tíma í fyrra 172 þúsund tonn.
 
Eins og áður segir hefur samdrátturinn fyrst og fremst komið til vegna lágs gengis á dollar sem gerir samkeppnisstöðu nautakjöts frá Bandaríkjunum sterkari og þau lönd sem áður fluttu inn kjöt frá Úrúgvæ hafa því skipt yfir í kjöt frá Bandaríkjunum. Þó er ljós í myrkrinu fyrir kúabændur í Úrúgvæ þar sem nágrannalöndin Venesúela og Brasilía virðast vera að taka við sér sem innflutningslönd á kjöti frá Úrúgvæ en þar hefur efnahagslífið gengið all vel og sk. millistéttarfólk hefur nú meira á milli handanna og kaupir í auknum mæli nautakjöt sem þau lönd anna ekki eftirspurn eftir/SS.