Samdráttur hjá Fonterra
09.10.2015
Fonterra í Nýja-Sjálandi hefur nú gefið út framleiðsluáætlun sína fyrir framleiðslu árið 2015-2016 og spáir fyrirtækið að 2-3% samdráttur verði á framleiðslu mjólkur sé miðað við fyrra framleiðsluár. Alls áætlar Fonterra að framleiðslan endi í 1.589 milljónum kílóa af verðefnum mjólkur sem umreiknað svarar til um 19,2 milljarða lítra framleiðslu.
Skýringin á samdrættinum er auðvitað lágt afurðaverð en það hefur leitt til bæði fækkunar kúa en einnig hefur stórlega dregið úr kjarnfóðurgjöf. Þá hefur dregið verulega úr beitarálagi, sem eitthvað vegur upp á móti minni kjarnfóðurgjöf en mestu munar líklega um færri gripi í framleiðslu. Hvort hækkanir undanfarnar vikur á uppboðsmarkaði mjólkurafurða sem við sögðum frá í gær leiði til breytinga í Nýja-Sjálandi er ekki gott að segja fyrir um, en ef þróun til hækkunar heldur áfram má búast við að kúabændur þar í landi fari á ný að efla framleiðsluna/SS.