Beint í efni

Samanburður á matskerfum fyrir nautgripakjöt

10.05.2007

Síðla árs 2005 unnu Óli Þór Hilmarsson, þá á Matra (Matvælarannsóknir á Keldnaholti, nú Matís ohf) og Stefán Vilhjálmsson, yfirkjötmatsmaður skýrslu fyrir Landssamband kúabænda um samanburð matskerfa fyrir nautakjöt. Borið var saman núverandi mat á nautgripakjöti og sk. EUROP mat, sem notað er í nágrannalöndunum og hliðstætt því mati sem notað hefur verið í kindakjöti hér á landi í tæpan áratug. Skýrsla þessi var lögð fyrir aðalfund LK árið 2006 en niðurstaða fundarins var að gera ekki tillögur um breytingar á þessu sviði að svo stöddu.

Í niðurlagi skýrslunnar segir að hún „sýni með nokkuð skýrum hætti hvaða breytinga er að vænta fyrir innleggjendur nautgripa ef tekið verður upp EUROP-mat hér á landi.

 

Nánari greining fæst á holdfyllingu ungneyta þar sem langstærsti holdfyllingarflokkurinn, UN I (84,1% ungneytaskrokka 2004, meðalvigt 229 kg), skiptist í þrennt (O-, P+ og P).

 

Kerfisbreytingin hefði það líka í för með sér að holdanautagripir yrðu sýnilegri en áður. Í kýrkjötinu skiptist K I í P+ og P. Allir skrokkar eru metnir eftir sama kerfi eins og áður hefur verið bent á.

 

Áhrif kerfisbreytingar á verð til innleggjanda ræðst eðlilega af skiptingu gripanna í holdfyllingarflokka og þeim verðhlutföllum sem ákveðin yrðu milli þeirra og á milli fituflokkanna. Í íslenska kerfinu er fituflokkur A langstærstur í ungneytakjöti (65,5% skrokka 2004). Við EUROP-matið í þessu úrtaki skiptist hann mikið upp og 124 skrokkar af 138 flokkuðust á bilinu 2- til 3-. Það er afleiðing nákvæmari lýsingar á EUROP-fituflokkunum. Í norsku verðskránni er frádrag fyrir 3- en ekki 1+. Miðað við núgildandi verðlagningu hér á landi er líklegt að hér yrði þessu öfugt farið. Fituflokkun samkvæmt EUROP-kerfinu býður upp á meiri sundurliðun feitustu skrokkanna (fitufl. C í ungneyta- og kýrkjöti).

 

Ávinningur kjötvinnslna við að skipta um matskerfi er verulegur þar sem skýrari línur verða á milli flokka og þar með hvers megi vænta í nýtingu hvers skrokks fyrir sig“.

 

Skýrsluna í heild sinni er að finna hér (stærð 1,4 MB).