Beint í efni

Samanburður á krónuláni og láni í erlendri mynt

05.09.2007

Í byrjun ágúst voru settar hér á vefinn hugleiðingar um lán í erlendri mynt, vexti, gengismál og fleira. Í framhaldi af því spunnust athyglisverðar umræður milli tveggja lesenda, þar sem m.a. var skorað á LK að setja upp samanburð á innlendu og erlendu láni. Landssamband kúabænda fékk starfsmenn Landsbankans til að gera þetta verkefni. Miðað er við verðtryggt krónulán á kjörvöxtum bankans á hverjum tíma og lán í erlendri myntkörfu, 50% svissneskum frönkum og 50% japönskum yenum. Vaxtaálag ofan á LIBOR er 3%. Upphæð láns er 10 milljónir kr. og lánstími er 10 ár. Miðað er við að lánið sé tekið 1. ágúst 1997 og ætti því að vera nýlokið að greiða það upp. Til hægðarauka er gert ráð fyrir 2 gjalddögum á ári, 1. ágúst og 1. febrúar.

Þegar tekið er saman hvað þarf að greiða af verðtryggða krónuláninu kemur í ljós að heildar endurgreiðsla m.v. framangreindar forsendur er 16.259.807 kr. Endurgreiðsla á myntkörfuláninu er 13.088.144. Mismunur á kostnaði vegna þessara lána er því 3.162.242 kr, kostnaður við krónulánið er ríflega tvöfaldur kostnaður myntkörfulánsins.

 

Sveiflur í afborgunarþunga eru mun meiri í körfuláninu en því innlenda, eins og myndin hér að neðan sýnir. Að jafnaði eru þær 654.000 kr á hverju tímabili, fara hæst upp í 823.000 og lægst niður í 504.000 kr. Flöktið er 14,1%. Í innlenda láninu er meðal greiðsla hvers tímabils 813.000 kr., fer hæst í 900 þús. og lægst í 750 þús. Flöktið er 5,1%.

 

Þrátt fyrir að sveiflurnar séu meiri í körfuláninu er alltaf léttara að greiða af því en verðtryggða krónuláninu. Það er þó ástæða til að ítreka að borð þarf að vera fyrir báru að mæta þessum sveiflum.

 

Það sem skiptir síðan megin máli, er hvenær lánið er tekið. Er það gert þegar GVT er 110 eða þegar hún er 130? Líklega er það sá þáttur sem mest áhrif hefur á hagkvæmni þess að taka myntkörfulán. Þá skiptir tímaramminn einnig talsverðu máli. Lán til skamms tíma, 1-2 ára, getur verið mjög áhættusamt að taka í erlendri mynt en til lengri tíma sýnist það vera borðleggjandi dæmi.