Beint í efni

Samanburðartilraun á kjarnfóðurblöndum að ljúka

28.04.2008

Að frumkvæði Landssambands kúabænda, setti LBHÍ af stað nú í vetur samanburðartilraun á kjarnfóðurblöndum með dýrapróteini (fiskimjöli) og plöntupróteini (soja o.fl.) hins vegar. Tilraunin var gerð á Möðruvöllum og Hvanneyri. Henni er lokið á fyrrnefnda búinu en mun ljúka í þessari viku á Hvanneyri. Að sögn eins umsjónarmanna verkefnisins, Þóroddar Sveinssonar, hafa tilraunirnar gengið vel og engin meiri háttar vandkvæði komið upp. Vonast er til að bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir núna í vor.

Eins og bændur þekkja vel, urðu gífurlegar hækkanir á verði fiskimjöls á árinu 2006. Sem viðbrögð við þeim verðhækkunum, sem hefur ásamt öðru leitt til mikilla verðhækkana á kjarnfóðri, fóru fóðurfyrirtækin á síðasta ári að bjóða kúabændum kjarnfóðurblöndur sem innhalda ekki fiskimjöl, í daglegu tali kallaðar „dönsku“ blöndurnar. Í stað fiskimjöls er aðallega notað sojamjöl í blöndurnar. Þrátt fyrir að hrápróteininnihald sé svipað í þessum nýju blöndum að þá er annað mjög ólíkt. T.d.eru þær í samanburði við fiskimjölsblöndurnar með;
– umtalsvert lægra reiknað AAT magn
– umtalsvert hærra reiknað PBV
– heldur minni orkuþéttni
Þessar nýju blöndur eru nokkuð ódýrari en fiskimjölsblöndurnar og meðal kúabú getur sparað talsverðar upphæðir á ársgrundvelli með því að skipta yfir í þessar blöndur. Fóðurfræðilegum kostum fiskimjöls hefur þó mjög verið haldið á lofti í umræðu um þessi mál, og það hefur haft þau áhrif að margir bændur vilja ekki taka áhættuna á að skipta, nema að fyrir liggi rannsóknir á þessum blöndum. Markmið þessa verkefnis er að skera úr um með tilraunum hvort þessar nýju blöndur skili sambærilegum árangri og hefðbundnar kjarnfóðurblöndur með fiskimjöli, ef litið er til afurða og efnamagns í mjólk.