Beint í efni

SAM: sama framleiðslumagn og í fyrra

21.12.2017

Samkvæmt nýútkomnu yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði var sala á fitugrunni 145,0 milljónir lítra síðustu 12 mánuði (desember 2016 – nóvember 2017) og 132,1 milljónir lítra á próteingrunni. Það berast því enn á ný jákvæðar fréttir af sölunni innanlands enda söluaukning á 12 mánaða tímabili, miðað við 12 mánaða tímabilið þar á undan, bæði þegar horft er til fitu- og próteinsölu.

Á sama tíma hefur hins vegar innvigtun mjólkur staðið í stað fyrstu 11 mánuði þessa árs miðað við sömu mánuði árið 2016. Alls hefur framleiðslan í ár verið  138,4 milljónir lítra sem er sama innvegna magnið og kom til afurðastöðva landsins á sama tíma árið 2016. Eins og sjá má af umfjöllun naut.is um framleiðsluna það sem af er ári þá hefur framleiðslan verið minni í ár en í fyrra en hefur s.s. núna jafnað sig miðað við 2016. Sjá mátti viðsnúning í framleiðslunni í september og hefur sá viðsnúningur haldist bæði í október og nóvember og var innvigtun mjólkur þessa þrjá mánuði 1,5 milljón lítrum meiri en í sömu mánuðum árið 2016/SS.