
SAM: Sala heldur áfram að dragast saman
18.11.2020
Samkvæmt yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var sala á fitugrunni 145 milljónir lítra síðustu 12 mánuði (nóvember 2019 – október 2020) og 122,1 milljónir lítra á próteingrunni. Það þýðir að salan á próteingrunni er enn að dragast saman miðað við sambærilegt tímabil fyrir ári síðan. Alls dróst salan á próteingrunni saman um 3,6% síðustu 12 mánuði og salan á fitugrunni um 1%. Sé horft til síðustu þriggja mánaða nam sölusamdrátturinn 4,7% á próteingrunni en fitusalan um 3,8%.
Á sama tíma, þ.e. síðustu 12 mánuði, hefur mjólkurframleiðslan verið meiri en fyrir sambærilegt tímabil mánuðina 12 þar á undan. Þannig nam innvigtun mjólkur 152,4 milljónum lítra sem er 1,2% aukning frá sama tímabili fyrir ári síðan. Alls nam innvigtun mjólkur í októbermánuði 11,2 milljónum lítra, sem er 5,9% minni framleiðsla en í október í fyrra. Innvigtun mjólkur til þessa í ár er nú komin í 128,3 milljónir lítra, en sé sama tímabil skoðað fyrir árið í fyrra nam innvigtunin þá 127,8 milljónum lítra. Framleiðslan til þessa í ár er því 555 þúsund lítrum meiri en á sama tíma í fyrra og nemur þessi munur 0,4%.