
SAM: Próteinsalan heldur áfram að aukast
12.12.2022
Samkvæmt yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var sala á fitugrunni 146,2 milljónir lítra síðustu 12 mánuði (desember 2021 – nóvember 2022) og 127,5 milljónir lítra á próteingrunni. Alls jókst salan á próteingrunni um 2,9% síðustu 12 mánuði en á sama tíma í fyrra mældist aukningin 0,9% á 12 mánaða tímabili. Sala á fitugrunni hefur dregist saman um 1,3% síðastliðna þrjá mánuði og sé horft til nóvember mánaðar 2021 er samdrátturinn milli ára 4,2%. Sé hins vegar horft til breytinga síðustu 12 mánuði er einungis um að ræða 0,1% samdrátt. Mismunur á prótein- og fitusölu heldur þannig áfram að minnka í kjölfar aukinnar próteinsölu og er í dag 18,7 milljónir lítra samanborið við 21,5 milljónir lítra í upphafi ársins.
Fyrri hluta ársins var mjólkurframleiðslan nokkuð undir innvigtun fyrri hluta árs 2021. Breyting varð á þessu í ágúst, en síðan þá hefur innvigtun hvers mánaðar verið yfir innvigtun sömu mánaða í fyrra. Alls nam innvigtun mjólkur í nóvember 11,6 milljónum lítra, sem er 2,4% eða 272 þúsund lítrum meiri framleiðslan en nóvember í fyrra. Heildarinnvigtun mjólkur frá ársbyrjun nam í lok nóvembermánaðar 135,8 milljónum lítra, en sé sama tímabil skoðað fyrir árið 2021 nam innvigtunin þá 137 milljónum lítra. Framleiðsla fyrstu 11 mánuði ársins er þannig 1,2 milljónum lítrum eða 0,8% minni en á sama tímabili í fyrra.