Beint í efni

SAM: Minni innvigtun mjólkur fyrstu fjóra mánuði ársins samanborið við 2021

25.05.2022

Samkvæmt nýju yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), sem nær yfir tímabilið frá byrjun maí í fyrra til lok apríl í ár, var innvigtun mjólkur fyrstu fjóra mánuði þessa árs 49,5 milljón lítrar en á sama tíma í fyrra nam innvigtunin 50,9 milljónum lítra. Munurinn nemur alls 1,45 milljónum lítra eða um 2,9% samdrætti. Áframhaldandi samdráttur er í framleiðslunni en innvigtun febrúar-, mars- og aprílmánaðar hefur verið minni en í sömu mánuðum árið 2021.

Í apríl nam innvigtunin 12,85 milljón lítrum en í fyrra nam hún 13,3 milljón lítrum. Munurinn er 3,0%. Innvigtun sl. 12 mánuði stendur í 147,4 milljónum lítrum, sem er samdráttur uppá 1,5% miðað við sambærilegt tímabil mánuðina 12 þar á undan.

Í yfirlitinu kemur einnig fram að sala á fitugrunni nam 145 milljónum lítra sem er aukning á 12 mánaða tímabili um 1,3%. Samdráttur upp á 1,5% hefur aftur á móti átt sér stað undanfarna þrjá mánuði. Salan á próteingrunni hefur einnig dregist saman síðustu þrjá mánuði, um 0,4%. Þrátt fyrir það hefur prótein salan aukist síðustu 12 mánuði um 1,8% samanborið við sambærilegt tímabil 12 mánuðina þar á undan. Próteinsalan síðustu 12 mánuði er 124 milljón lítrar sem gefur okkur að munurinn á sölu á prótein- og fitugrunni er kominn í 21 milljónir lítra.