
SAM: 4,9% minni innvigtun fyrstu 4 mánuði ársins
20.05.2019
Samkvæmt yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var innvigtun mjólkur fyrstu fjóra mánuði þessa árs 4,9% minni en fyrstu fjóra mánuði síðast árs. Þetta kemur fram í nýju yfirliti SAM sem nær yfir tímabilið maí 2018 til apríl 2019. Í því kemur einnig fram að sala á fitugrunni hefur heldur betur tekið við sér á ný eftir heldur slakt gengi framan af árinu. Alls nam salan á fitugrunni 146,0 milljónum lítra sem er aukning á 12 mánaða tímabili um 1%. Salan á próteingrunni nam 128,4 milljónum lítra sem er samdráttur um 2,5% á 12 mánaða tímabili.
Á sama tíma, þ.e. síðustu 12 mánuði, hefur mjólkurframleiðslan dregist saman í samanburði við sambærilegt tímabil mánuðina 12 þar á undan. Þannig nam innvigtun mjólkur 149,8 milljónum lítra sem er 3,0% samdráttur frá sama tímabili fyrir ári síðan. Í apríl sl. var innvigtunin heldur minni en í sama mánuði í fyrra en þó munar ekki nema 0,5% sem er miklu minna í einum mánuði en verið hefur það sem af er þessu ári. Heildar innvigtunin í apríl var 1370 milljónir lítra og alls nemur innvigtunin fyrsta þriðjung ársins alls 50,7 milljónum lítra en til samanburðar má geta þess að fyrstu fjóra mánuði síðasta árs nam innvigtunin 53,3 milljónum lítra/SS.