Beint í efni

SAM: Hálfs árs innvigtun komin í 78 milljónir lítra

14.08.2023

Samkvæmt nýjasta yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), sem nær yfir tímabilið frá byrjun júlí í fyrra til lok júní í ár, heldur innvigtun ársins áfram að vera yfir innvigtun 2022. Í júní var heildarinnvigtun mjólkur 13,4 milljónir lítra, sem er 2,6% aukning frá júní í fyrra. Innvigtun mjólkur fyrstu sex mánuði ársins er þannig komin í 78,1 milljónir lítra sem er aukning um rúma 2 milljónir lítra milli ára (eða 2,7%) en á sama tíma í fyrra nam hálfs árs innvigtun 76 milljónum lítra.  Hvað varðar innvigtun síðastliðna tólf mánuði þá stendur hún í 150 milljónum lítra, sem er 2,1% aukning miðað við sambærilegt tímabil mánuðina tólf þar á undan.

Í yfirlitinu kemur fram að sala á bæði fitu- og próteingrunni heldur áfram að vera góð, en salan á fitugrunni hefur aukist um 3,3% frá fyrra ári þegar litið er til síðustu 3 mánaða og 4,7% ef litið er til júnímánaðar. Salan á fitugrunni síðastliðna tólf mánuði nemur þannig 149,5 milljónum lítra, sem er aukning um 2,5% frá mánuðunum tólf þar á undan. Sé litið til próteinsölunnar, þá hefur sala á próteingrunni aukist um 4,2% frá fyrra ári sé litið til síðustu 3 mánaða en 4,5% sé litið til júnímánaðar. Salan á próteingrunni síðastliðna tólf mánuði nemur þannig 131,2 milljónum lítra, sem er aukning um 4,6% frá mánuðunum tólf þar á undan.