
SAM: Framleiðsla ársins komin í 124,2 milljónir lítra
17.11.2022
Samkvæmt yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var sala á fitugrunni 146,7 milljónir lítra síðustu 12 mánuði (nóvember 2021 – október 2022) og 127,1 milljónir lítra á próteingrunni. Alls jókst salan á próteingrunni um 3,2% síðustu 12 mánuði en á sama tíma í fyrra mældist samdrátturinn 0,4% á 12 mánaða tímabili. Sala á fitugrunni jókst um 1,2% síðustu 12 mánuði. Sé horft til síðustu þriggja mánaða var söluaukning á próteingrunni 5,1% og 2,6% á fitugrunni.
Fyrri hluta ársins var mjólkurframleiðslan nokkuð undir innvigtun fyrri hluta árs 2021. Breyting varð á þessu í ágúst, en síðan þá hefur innvigtun hvers mánaðar verið yfir innvigtun sömu mánaða í fyrra. Alls nam innvigtun mjólkur í október 11,6 milljónum lítra, sem er 5,7% eða 622 þúsund lítrum meiri framleiðslan en október í fyrra þegar hún var 10,9 milljónir lítra. Heildarinnvigtun mjólkur frá ársbyrjun nam í lok októbermánaðar 124,2 milljónum lítra, en sé sama tímabil skoðað fyrir árið 2021 nam innvigtunin þá 125,7 milljónum lítra. Framleiðsla fyrstu 10 mánuði ársins er þannig 1,48 milljónum lítrum eða 1% minni en á sama tímabili í fyrra.