Beint í efni

SAM: 6,1% minni framleiðsla í mars 2022 en í mars 2021

19.04.2022

Samkvæmt yfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) var sala á fitugrunni 144,9 milljónir lítra síðustu 12 mánuði (apríl 2021 – mars 2022) og 124,1 milljón lítra á próteingrunni. Sala á fitugrunni dróst saman um 8,0% m.v. mars árið 2021 og sala á próteingrunni dróst saman um 2,7%. Mikilvægt er þó að hafa í huga að í fyrra var 31. mars miðvikudagurinn fyrir páska, sem er einn stærsti söludagur Mjólkursamsölunnar hvert ár. Af því leiddi að stór hluti páskasölunnar árið 2021 féll í mars mánuði en í ár voru páskarnir í apríl mánuði. Sölusamdrátturinn sýnir því ekki rétta mynd af raunverulegum breytingum í sölu milli ára. Sé litið til síðustu 12 mánaða jókst salan bæði á fitu- og próteingrunni. Aukningin var um 1,6% á próteingrunni og 0,8% á fitugrunni. Hvað varðar söluna síðastliðna þrjá mánuði, þá hefur örlítill samdráttur átt sér stað í sölu á próteingrunni, eða samdráttur um 0,4%. Á fitugrunni hefur samdráttur síðastliðna þrjá mánuði verið 2%.

Á sama tíma, þ.e. síðustu 12 mánuði, hefur mjólkurframleiðslan dregist saman um 1,5% miðað við sambærilegt tímabil mánuðina 12 þar á undan. Þannig nam innvigtun mjólkur síðastliðna 12 mánuði um 147,8 milljónum lítra. Þrátt fyrir að örlítið meiri innvigtun hafi verið í janúar 2022 en í janúar 2021 skiluðu bæði febrúar og mars minni framleiðslu miðað við sömu mánuði í fyrra. Heildar innvigtunin í mars nam 13,1 milljónum lítra, sem er rúmlega 851 þúsund lítrum minna en í mars árið 2021 eða samdráttur um 6,1%. Innvigtun það sem af er ári 2022 er 36,6 milljón lítrar en á sama tímabili í fyrra var innvigtunin 37,7 milljónir lítra. Innvigtun fyrstu 3 mánaða ársins hefur því dregist saman um 2,8% frá fyrra ári.