Beint í efni

Sala nautakjöts dróst saman í mars

15.04.2011

Sala á nautakjöti í mars sl. dróst saman um 7,7% miðað við sama mánuð í fyrra, en þetta kemur fram í yfirliti Bændasamtaka Íslands. Skýringanna á þessari þróun er fyrst og fremst að finna í minni framleiðslu um þessar mundir en fyrir ári síðan. Framleiðslan í mars sl. var 0,9% minni en í mars fyrir ári síðan en ársframleiðslan, þ.e. síðustu 12 mánuði, er þó heldur hærri en 12 mánuðum fyrr eða 1,0% og alls 3.819 tonn.

 

Alls nam sala nautgripakjöt í mars 334 tonnum og sl. 12 mánuði 3.815 tonnum og er það 0,5% meiri árssala en 12 mánuðina á undan. Er nautgripakjöt eina kjöttegundin sem er með söluaukningu sl. 12 mánuði en heildar samdráttur í sölu allra kjöttegunda nemur 3,0%.

 

Horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mars var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 193 tonn, sem er 3,4% samdráttur m.v. sama mánuð á sl. ári og síðustu 12 mánuði nemur samdráttur í sölu ungnautakjöts 2,9%. Töluverð aukning er hinsvegar í sölu kýrkjöts eða um 2,9% sl. 12 mánuði en samdráttur var þó í sölu kýrkjöts í mars.

 

Þegar litið er til sölu annarra kjöttegunda sl. 12 mánuði, var sala á alifuglakjöti sem fyrr mest eða 7.007 tonn (-3,7%), lambakjöti 6.061 tonn (-2,6%), af svínakjöti seldust 5.982 tonn (-3,1%) og sala á hrossakjöti var 522 tonn (-18,5%). /SS