Beint í efni

Sala mjólkurvara eykst – framleiðslan minnkar!

18.03.2004

Samkvæmt nýju yfirliti frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði gengur nú vel með sölu mjólkurvara, sér í lagi varð mikil aukning í sölu á jógúrti í febrúar sl. miðað við fyrra ár. Heildarframleiðsla mjólkur er á hinn bóginn enn verulega undir mörkum og er framleiðsla þessa verðlagsárs (frá byrjun september) nú 5,4% minni en á sama tíma í fyrra. Áætlanir um kaup á umframmjólk í sumar munu væntanlega ná að vega upp framleiðsluminnkunina nú.

Ef litið er til einstakra tegunda er sala drykkjarmjólkur tæplega 2% minni ár ársgrunni en fyrir ári síðan og sala á ostum 0,2% minni. Skyr, jógúrt og rjómi eru hinsvegar með verulega aukningu á ársgrunni miðað við fyrra ár. Heildarniðurstaðan er því sú að sölusamdráttur nemur rétt um 0,25%, en var 0,30% í janúar. Söluþróunin virðist því vera á réttri leið.

 

Miðað við umreiknaða sölu mjólkurvara á fitu- og próteingrunn er áætlað greiðslumark nú 104,7 milljónir lítra, en heildargreiðslumark þessa verðlagsárs er 105 milljónir lítra.

 

Það sem af er þessu verðlagsári hafa verið framleiddir 50,6 milljónir lítra m.v. 53,5 milljónir lítra á sama tíma fyrir ári. Mismunurinn: 2,9 milljónir lítra er því um 5,4%. Á þessu ári nemur framleiðslan 18,1 milljónum lítra, en á sama tíma í fyrra nam framleiðslan 19,3 milljónum lítra. Mismunurinn: 1,2 milljónir lítra nemur því um 6,1%.