Beint í efni

Sala á sýklalyfjum fyrir dýr dregist saman um 20%

23.11.2020

Sýklalyfjanotkun í dýr er með lægsta móti hérlendis í samanburði við önnur Evrópulönd, eins og nýútgefin skýrsla Lyfjastofnunar Evrópu sýnir. Í útgáfu skýrslunnar í ár eru þau nýmæli að þar er tekin saman þróun á sölu sýklalyfja fyrir hvert og eitt land fyrir árin 2010-2018. Fyrir Ísland má sjá að heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis hefur dregist saman um 20% á þessum árum.  Stærstur hluti sölunnar er þröngvirk, beta-laktamasanæmum pencillin sem er jákvætt, þar sem notkun þröngvirkra sýklalyfja takmarkar myndun á sýklalyfjaónæmi.

Dagana 18.-24. nóvember 2020 er alþjóðleg vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja. Markmiðið er að auka skilning og meðvitund um sýklalyfjaónæmi og hvetja til þess að sýklalyf séu notuð skynsamlega á öllum sviðum, hvort sem er hjá mönnum eða dýrum. Sýklalyfjaónæmi er ógn sem steðjar að allri heimsbyggðinni og til að berjast gegn þessari vá þarf að taka höndum saman úr öllum áttum – hjá mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi.

Sýklalyf eru notuð til að meðhöndla sýkingar af völdum baktería í mönnum og dýrum. Ef sýklalyf missa virkni sína þá getur reynst erfitt að meðhöndla sýkingar í mönnum og dýrum, auk þess geta sýklalyfjaónæmar bakteríur síðan borist á milli manna, dýra og umhverfis, með beinum eða óbeinum hætti. Röng og óhófleg notkun á sýklalyfjum getur leitt til þess að bakteríur myndi ónæmi gegn þeim sýklalyfjum sem virkuðu áður á þær. Óhófleg notkun getur stafað af of mikilli ávísun sýklalyfja meðal lækna og dýralækna og aðgengi almennings að sýklalyfjum án lyfseðils, svo dæmi séu nefnd. Notkun sýklalyfja til meðhöndlunar á veirusýkingum og notkun sýklalyfja sem vaxtarhvetjandi efni fyrir búfé eru dæmi um ranga notkun sýklalyfja.

Að vikunni standa Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE), Alþjóðaheilbrigðistofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) enda skiptir máli að sýklalyf séu notuð skynsamlega á öllum þessum sviðum. Að auki heldur OIE úti vefsíðu sem fjallar um skynsamlega notkun sýklalyfja í dýr. Þar er hægt að finna ábendingar um hvað dýraeigendur, dýralæknar, yfirvöld, lyfjaframleiðendur, fóðurframleiðendur og heildsalar geta gert til að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja. Þar er einnig að finna próf sem dýraheilbrigðisstarfsmenn og dýraeigendur geta spreytt sig á til að kanna þekkingu sína á sýklalyfjum.

Ítarefni: