Sala á próteingrunni komin yfir 114 milljónir lítra
19.05.2007
Samkvæmt yfirliti frá SAM sem kom út í gær, losar sala á próteingrunni nú 114 milljónir lítra síðustu 12 mánuði. Af helstu vöruflokkum má nefna að mjólkurflokkurinn sýnir aukningu upp á 1,3% og er mest aukning í sýrðu vörunum, rúm 14% meðan nýmjólkin sýnir samdrátt upp á 1,3%. 1% aukning er í sölu á rjóma, meðan samdráttur er í skyri og jógúrt.
Merkilegast er þó að horfa upp á þróunina í viðbitinu. Söluaukning á smjöri er nú orðin heil 10% á undanförnu ári, meðan viðbit í heild sýnir 8,4% söluaukningu. Ostarnir eru einnig að gera það gott með 6% aukningu. Sala á fitugrunni er nú 105,8 milljónir lítra, þannig að munur á prótein- og fitusölu er nú 8,2 milljónir lítra. Fyrir fáum árum var þessi munur á elleftu milljón lítra, þannig að verulega hefur dregið saman í þessum efnum, sem er ánægjuleg þróun.
Þess má geta að nákvæm próteinsala skv. tölum SAM er 114.003.208 lítrar. Inni í þessum tölum eru ekki sölutölur frá Mjólku ehf. þar sem þær eru ekki gefnar upp. Gera má ráð fyrir að heildar próteinsala á innanlandsmarkaði sé í kringum 115 milljónir lítra og hefur líkast til ekki verið meiri í annan tíma.